Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Undirbúa aðgerðir vegna áhrifa COVID-19 á efnahaginn

06.03.2020 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir í dag, eftir að tvö smit hafa greinst innanlands og samtals 43 smit hafa verið greindir með COVID-19 kórónaveiruna. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir í færslu á Facebook að þetta þýði að meiri þungi færist í aðgerðir stjórnvalda og þeirra stofnana sem hafi hlutverki að gegna við að hemja útbreiðslu veirunnar.

Óumflýjanlegt er að einhverjar takmarkanir verði settar á mannamót og samkomur á næstunni til að hefta útbreiðsluna, segir forsætisráðherra í færslunni. Nú, sem fyrr skiptir það öllu máli að við leggjum öll okkar af mörkum til að það megi takast að hægja á útbreiðslunni, segir forsætisráðherra í færslunni. 

„Á sama tíma er ljóst að þessi faraldur mun hafa áhrif á stöðu efnahagsmála. Stjórnvöld undirbúa nú aðgerðir í ríkisfjármálum til að vinna gegn slaka í efnahagsmálum og sama á við um Seðlabankann. Við erum vel í stakk búin, með öflugan gjaldeyrisvaraforða, lágt skuldahlutfall og góðan aðgang að erlendu fjármagni,“ segir Katrín. Stjórnvöld geri það sem þurfi til að hemja útbreiðslu veirunnar og vinna gegn áhrifum hennar á efnahagslífið.