„Í fyrsta lagi er alveg ljóst að þessi urðunarstaður hefur uppfyllt öll skilyrði Umhverfisstofnunar og hefur rekstrarleyfi frá henni. Ég sé að Umhverfisstofnun ætlar að heimsækja Fíflholt í dag,“ sagði Páll á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. „Í öðru lagi er alveg ljóst að við þurfum auðvitað líka að líta í eigin barm og sjá hvað við getum gert betur til að hindra fok. Það hefur verið meira um fok í vetur heldur en undanfarið. Það er þegar farið að undirbúa aðgerðir varðandi það að hefta frekara fok og draga úr því.“ Í þriðja lagi þurfi að efla umhverfisvitund íbúa þannig að þeir standi sig betur við flokkun, að mati Páls.
Sjá einnig: Sorpurðun til skoðunar hjá Umhverfisstofnun
Urðaður er blandaður úrgangur frá Vesturlandi og hluti sorps frá Suðurlandi og Vestfjörðum. Rakel Steinarsdóttir tók myndbandið hér fyrir neðan af urðunarstaðnum um síðustu helgi og birti á Facebook. Myndirnar hafa vakið mikla athygli. Páll tekur undir að myndirnar séu ekki fallegar en segir að hafa verði í huga að þetta sé staður þar sem sorp er urðað.