Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Undirboð í kjörum kemur öllum við“

08.11.2019 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - ASÍ
Drífa Snædal, forseti ASÍ, tjáir sig í föstudagspistli sínum um launakjör flugliða sem eigi eftir að taka til starfa hjá nýja flugfélaginu Play. Fregnir hafa borist um að launakostnaður nýja félagsins verði um þriðjungur af því sem hann var hjá WOW. Drífa segir það skýra kröfu til nýrra fyrirtækja á markaði að þau virði leikreglur á íslenskum vinnumarkaði. Undirboð í kjörum komi öllum við og bitni á endanum á samfél

Kjarninn greindi frá því í gær að launakostnaður hins nýja flugfélags Play yrði 27 til 37 prósentum minni en var hjá WOW air. Þetta segir Kjarninn að komi fram í fjár­festa­kynn­ingu sem Íslensk verð­bréfa unnu og kynntu fyrir vænt­an­legum fjár­festum í Play í síð­ustu viku. WOW air varð gjaldþrota í mars og tvö þúsund manns misstu vinnuna.

 Drífa segir í föstudagspistli sínum að aðaleigandi Wow air og forstjóri hafi sagt að launakostnaðurinn hefði sett félagið á hausinn. Ekkert sé meira fjarri sanni. Hún segir fulla ástæðu til þess að velta því fyrir sér hvernig hægt verði að greiða enn lægra verð fyrir vinnuframlag en gert hafi verið hjá WOW og nú sé gert hjá Icelandair. „Ýmsar vísbendingar hafa komið fram í kynningarefni fyrir fjárfesta þar sem á að vera „betri nýting“ á áhöfnum, sem sagt meiri vinna fyrir sömu laun. Vísað er í kjör sem flugliðum býðst á Írlandi en það hefur hingað til verið bækistöð flugfélaga sem halda kostnaði niðri með lágum launum og mikilli vinnu,“ segir Drífa. 

Það brjóti gegn öllum grunnstoðum stéttarfélaga, og réttar þeirra til að tryggja hagsmuni félagsmanna sinna með kjarasamningum, að semja um kjör flugliða Play, nýs flugfélags, án þess að fulltrúar stéttarinnar komi þar nærri. „Undirboð í kjörum kemur öllum við og bitnar á endanum á samfélaginu öllu, bæði launafólki og þeim fyrirtækjum sem virða leikreglur,“ segir Drífa. 

„Það er væntanlega óþarfi að rifja upp hversu miklu máli þetta skipti þegar WOW fór á hausinn og ASÍ gat hlaupið undir bagga með Flugfreyjufélaginu sem greiddi félagsmönnum fyrir fram upp í kröfur þeirra á ábyrgðasjóð launa til að tryggja að fólk hefði til hnífs og skeiðar þegar launagreiðslur brugðust,“ segir Drífa. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV