Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Undarlega mikil svifryksmengun í Reykjavík

11.06.2017 - 21:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svifryksmengun í Reykjavík er mun meiri en í stórri iðnaðarborg í Bandaríkjunum. Það vekur furðu og þarfnast rannsóknar, segir dr. Larry G. Anderson, bandarískur sérfræðingur sem fenginn var til að leggja mat sitt á aðstæður hér.

Anderson er prófessor emeritus við Háskólann í Denver, Colorado. Hann hefur rannsakað loftmengun í Bandaríkjunum í 45 ár. Hann var fenginn til að koma hingað og rýna í gögn um loftgæði í Reykjavík og nágrenni sem Umhverfisstofnun og Orkuveita Reykjavíkur hafa mælt síðustu tvö til sex ár. Fylgst er með magni svifryks, níturoxíðs og brennisteinsvetnis í andrúmslofti hér á landi. Anderson bar gögnin saman við samsvarandi gögn frá Bandaríkjunum. Niðurstaðan kom honum á óvart. 

„Ég átti ekki von á því að land eins og Ísland færi yfir mörkin. Ég er svo sannarlega undrandi yfir því hve mikil svifryksmengunin er.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Dularfull mengun

Reykjavík sé lítil borg þar sem hús eru hituð upp með hreinni endurnýjanlegri orku. Tæpar þrjár milljónir búi hins vegar í Denver í Colorado og þar er jarðefnaeldsneyti notað í iðnaði og til kyndingar. Þar, eins og hér, aki menn á bensín- og dísilbílum.  

Í Denver er fylgst með magni fíns svifryks í loftinu á hverjum degi. 

„Við höfum dagleg viðmið sem við höfum ekki farið yfir í 10 ár. Ég beitti sömu viðmiðum á gögn frá mælistöðinni við Grensásveg og samkvæmt þeim þá fór svifryksmengunin yfir mörkin 10 til 13 sinnum á ári.“

Finna þarf hvað veldur menguninni

Notkun nagladekkja í Reykjavík geti ekki verið útskýringin í þessu tilfelli því frá þeim kemur gróft svifryk. Fína rykið sé mun hættulegra og þyrfti að fylgjast með því hér á landi daglega. Gera má ráð fyrir að jarðefnaeldsneyti, útblástur frá bensín- og dísilbílum eigi þátt í menguninni.   

„En þið brennið ekki jarðefnaeldsneyti nema með bílum, trukkum og strætisvögnum, eiginlega engu öðru.“

„Þetta er mjög mjög dularfullt. Og það verður að rannsaka þetta svo þið getið fundið út hvað veldur menguninni og ákveðið hvernig þið ætlið að vinna gegn henni.  Þið getið ekki leyst þetta vandamál fyrr en þið vitið af hverju þetta stafar.“