Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Undarlega aðgengilegt

Mynd með færslu
 Mynd: Frosti Runólfsson - Miklabraut/myndband

Undarlega aðgengilegt

31.01.2020 - 10:35

Höfundar

Á KAST SPARK FAST, nýjustu plötu Benna Hemm Hemm, er að finna grípandi popplög í bland við kraumandi tilraunamennsku og maður veit aldrei almennilega hvað er handan við hornið.

Benni Hemm Hemm á ansi athyglisverðan feril að baki. Hann hefur gefið út alls kyns tónlist, lokkandi og áhlýðilega en einnig örgustu tilraunatónlist. Benedikt Hermann Hermannsson hefur spilað einn og með hljómsveitum og hóf að koma fram í rokkkreðsu landsins snemma á tíunda áratugnum, t.d. með Mósaík, Woofer og Rúnk, en þá var komið fram í þann fyrsta reyndar. Hann gaf út sólóplötu árið 2003 (Summerplate, 3 tommu geisladisk í 30 eintökum) en hljómsveitin Benni Hemm Hemm kom svo fyrst fram árið eftir, á fimm ára afmæli Tilraunaeldhússins. Sveitin hefur tekið á sig margar myndir, oft fjölskipuð með blástursleikurum en stundum í minna formi. Samnefnd plata kom út ári síðar, svo nokkrar í samstarfi við Kima á Íslandi og Morr Music í Berlín. Innihaldið oft einslags kammerpopp, en með einstæðum vinkli Benedikts, plötur eins og Kajak, Ein í leyni, Murta St. Calunga og Skot. Dvöl í Skotlandi gaf sumu af efninu eins konar þjóðlagablæ líka.

Litapalletta

Á þessum öðrum áratug hafa plöturnar haldið áfram að koma út og hefur okkar maður bætt í litapallettuna og reynt sig við alls kyns hluti. Árið 2016 tók hann nokkurs konar u-beygju með plötunni Skordýr, 22 laga plötu sem var bara fáanleg í gegnum streymisveitur. Sú plata tengdist öðrum miðlum einnig, á youtube voru skrítin og skemmtileg myndbönd við hvert og eitt lag og þá gaf hann einnig út ljóðabók með sama titli. Verklagið var nýtt fyrir Benna, sem kastaði allri óþarfa yfirlegu meðvitað út um gluggann og leyfði hlutunum að gerast óheft og frjálslega. Blíðustu popplög áttu þannig til að fara óforvarandis út í hávaðaorgíu. Fall (2018) herti svo enn á tilraunagleðinni ef eitthvað er.

KAST SPARK FAST er að tala til alls þessa, hér eru „eðlileg“ lög en oft er farið rækilega út fyrir rammann og þetta óhlutbundna, sem reigði sig á allra síðustu verkum (tíu mínútna hljóðlistaverk t.d.), kíkir reglulega í heimsókn. Sjá „Eyja“ t.d., sem fer mildilega af stað en flosnar svo fljótlega upp í blástursorgíu. Opnunarlag plötunnar, „Bar Kar“, fylgir svipaðri línu, hryssilegar tölvutrommur styðja við sérstæðan söng og lagið er aðgengilegt en undurfurðulegt á sama tíma. „Davíð 51“ er svo alger slagari, glæsileg hugleiðing um kristna trú og lagið flutti Benni Hemm Hemm í sjónvarpinu á dögunum ásamt stórskotasveit með eftirminnilegum hætti.

Markaþenjandi grallaraskapur

Þannig vindur plötunni áfram og maður veit aldrei almennilega hvað er handan við hornið sem gefur verkinu mikinn styrk. Hér koma grípandi popplög, en svo taka kannski við glettnar smíðar og markaþenjandi, „Klessir á SÁÁ“ inniheldur t.d. kostulegan texta, grallarasmíð, en strax á eftir heyrum við svo „Trúarjátning“, hæglætissmíð sem heldur áfram hugleiðingunum á „Davíð 51“. „Miklabraut“ fangar þessi eigindi öll kannski best. Á yfirborðinu einslags nýbylgjupopp en undir kraumar þessi uppátækjasemi sem Benni býr svo ríkulega að.

Meiri músík ku á leiðinni frá okkar manni á þessu ári. Er það vel. Benedikt hefur verið hluti af íslenskri tónlistarmenningu um langt skeið og minnir hér duglega á að hann er einn af okkar frumlegustu og frambærilegustu tónlistarmönnum.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Einlægt nútímapopp

Tónlist

Einlægt og ástríðufullt

Popptónlist

Einlægt og ágengt