Undanúrslit Gettu betur hefjast í kvöld

Undanúrslit Gettu betur hefjast í kvöld

28.02.2020 - 19:30
Undanúrslit Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, hefjast í kvöld með viðureign Borgarholtsskóla og Fjölbrautaskólans við Ármúla.

28 skólar hófu keppni í vetur og nú standa fjórir eftir. FÁ og Borgó sem mætast í kvöld, og Menntaskólinn í Reykjavík og Verzlunarskóli Íslands sem mætast næsta föstudag. 

Borgarholtsskóli sigraði Tækniskólann í 8-liða úrslitum en Fjölbrautaskólinn við Ármúla lagði Fjölbrautaskólann í Garðabæ að velli. FÁ er í fyrsta skipti komið í undanúrslit keppninnar síðan 1996. Borgarholtsskóli komst í úrslit keppninnar árið 2014 og hefur einu sinni hampað hljóðnemanum en það var árið 2005.

Spurningahöfundar og dómarar í Gettu betur eru Ingileif Friðriksdóttir, Vilhelm Anton Jónsson og Sævar Helgi Bragason. Spyrill er Kristjana Arnarsdóttir. Bein útsending frá keppni kvöldsins hefst á RÚV klukkan 19:45 en hana má einnig sjá í spilaranum hér fyrir ofan.