Una Stef, Jón Þór og Daníel Hjálmtýs með nýtt

Mynd: Una Stef & SP74 / Facebook

Una Stef, Jón Þór og Daníel Hjálmtýs með nýtt

19.03.2020 - 17:40

Höfundar

Eftir að blessað alnetið kom til sögunnar er alltaf allt í tísku einhvers staðar og hver getur fundið sér sinn stað. Lagalisti Undiröldunnar að þessu sinni endurspeglar þetta og við fáum frá íslenskum tónlistarmönnum allt frá myrkri folk-tónlist yfir í grúví fönk, poppað punk og níðþungan svartmálm.

Jón Þór - Höfuðkransar

Fölir vangar er önnur breiðskífan og þriðja platan sem Jón Þór sendir frá sér undir sínu nafni. Áður hefur hann sent frá sér breiðskífuna Sérðu mig í lit? og þrönskífuna Frúin í Hamborg. Lagið Höfuðkransar er tekið af plötunni Fölir vangar sem er meira hugsuð sem poppplata en fyrri verk Jóns Þórs þó hún sé aðallega blanda af indírokki og pönki, að sögn listamannsins.


Una Stef & the SP74 - Silver Girls

Tónlistarkonan og Reykvíkingurinn Una Stef braust fram á sjónarsviðið á árinu 2014 með plötu sinni Songbook. Nú er hún komin með nýtt verkefni ásamt grúv-hljómssveitinni SP74 sem er skipuð, ásamt henni, þeim Daníel Helgasyni, Baldri Kristjánssyni, Sólrúnu Mjöll Kjartansdóttur, Sólveigu Moravék og Elvari Braga Kristjónssyni.


Daníel Hjálmtýsson - Treehouse

Tónlistarmaðurinn Daníel Hjálmtýsson er kannski þekktastur fyrir ábreiðuverkefni sín þar sem hann bregður sér í líki Leonards Coen og Nicks Cave. En nú sendir hann frá sér lagið Treehouse undir sínu eigin nafni en það er annað lagið sem hann sendir frá sér á árinu.


H3M - Sorrow

Söngkonurnar Hulda Sif Högnadóttir og Hrefna Högnadóttir skipa hljómsveitina H3M sem er ný af nálinni. Þær syngja lag og texta Högna Friðþjófssonar Sorrow sem er nýkomið út.


Urmull og kraðak - Pristine Spray

Þættinum hefur borist bréf frá dúettnum Urmul og kraðaki en þeir eru að sögn Ragnars Jóns Ragnarssyni öðru nafni kallaðir Humi og Helgi Egilsson. Þeir hafa spilað saman í 20 ár og hafa verið í ýmsum böndum. Þeirra frægðarsól reis hæst þegar þeir ásamt Spilabandinu Runólfi slógu heimsmet á tennisvelli í Hafnarfirði með því að spila lagið Chameleon með Herbie Hancock í sex tíma samfleytt. Síðar gáfu þeir út plötuna Pétur og úlfurinn með hljómsveitinni Alræði öreiganna, auk þeirra skipuðu hana Snorri Páll Úlfhildarson Jónsson og Halldór Armand Ásgeirsson.


Fears - Let Me In

Hljómsveitina Fears sem hefur sent frá sér lagið Let Me In skipa söngvarinn Jonny Fears, trommarinn Egill Rafnsson, gítarleikarinn Birkir Rafn Gislason, bassaleikarinn Hálfdán Árnason, Arnar Ingi Ólafsson á kassagítar og hljómborðsleikarinn Sveinn M. Jónsson. 


Zakas - Unbroken We Stand

Þá er það blessaður svartmálmurinn en eins manns hljómsveitin Zakaz hefur sent frá sér lagið Unbroken We Stand af þröngskífu sinni Hof úr holdi. Lagið fjallar um nostalgíu fyrir einfaldari tímum og baráttu gegn hvers konar kúgun, eins og segir í umfjöllun Reykjavík Grapevine.