Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Umsóknin ekki formlega dregin til baka

13.03.2015 - 12:53
Maja Kocijancic, talsmaður stækkunarstjóra ESB.
 Mynd: EU Audiovisual Services
Talsmaður stækkunarstjóra Evrópusambandsins segir að sambandið hafi tekið til greina bréf ríkisstjórnar Íslands, um að landið sé ekki lengur í hópi umsóknarríkja að sambandinu. Formlega eigi þó eftir að draga umsóknina til baka.

 

Maja Kocijanic, talsmaður stækkunarstjóra Evrópusambandsins, sat fyrir svörum á daglegum blaðamannafundi framkvæmdastjórnar sambandsins í Brussel í dag.

 

Hún sagði að það væri réttur Íslands taka sjálfstæða ákvörðun um hvernig eigi að haga samskiptum við Evrópusambandið og sambandið virði að sjálfsögðu slíka ákvörðun. Sérstaklega væri tekið til greina að Ísland vildi ekki vera lengur í hópi umsóknarríkja. Landið væri þó enn mikilvægur samstarfsaðili ESB og dyr sambandsins væru Íslendingum enn opnar.

Í lok blaðamannafundarins spurði franskur blaðamaður hvað þetta þýddi um þá styrki sem Íslendingar hafa fengið frá ESB vegna aðildarumsóknar sinnar, hvort krafist yrði endurgreiðslu. Kocijanic sagði að frekari upplýsingar um það myndu liggja fyrir á næstu dögum. Ríkisstjórn Íslands hefði enn ekki formlega dregið umsókn sína til baka.

Aðspurður hvort að ákvörðun Íslendinga væri áfall fyrir stækkunarstefnu Evrópusambandins sagði Margaritis Schinas, talsmaður framkvæmdastjórnar sambandsins, svo ekki vera. Þetta væri sjálfstæði ákvörðun Íslands. Landið hafi viljað ganga í Evrópusambandið þegar harðnaði í ári, en vilji nú stíga til hliðar. Hann ítrekaði að dyr Evrópusambandsins séu þó enn opnar Íslendingum.

 

verai's picture
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður