Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Umræðan hafi ekki veikt formannsstöðu hans

28.06.2019 - 10:39
Mynd með færslu
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Ólga er meðal félaga í Sjálfstæðisflokknum vegna þriðja orkupakkans. Samstaða er innan þingflokksins um málið en rótgrónir Sjálfstæðismenn líkt og Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafa gagnrýnt forystu flokksins harðlega vegna orkupakkans. Þá hefur borið á úrsögnum úr flokknum. Bjarni, Benediktsson, formaður flokksins segir flokkinn alltaf hafa verið breiðan og þar hafi ólík sjónarmið getað þrifist.

Menn á endanum meira sammála

„Það eru uppi ólík sjónarmið og ég tengi mjög vel við þá hagsmuni sem að menn vilja verja fyrir okkur Íslendinga fram á við litið," segir Bjarni. Þá bæði í beinum tengslum við samstarfið á EES-svæðinu en líka til lengri tíma, svo sem orkumál og önnur mál.  „Mál sem snerta hreinlega fullveldið þar held ég að menn séu á endanum miklu meira sammála heldur en þessi spenna í tengslum við málið gefur til kynna," segir hann. 

En hafa gagnrýnisraddirnar haft áhrif á störf þingflokksins? „Ekki nema það að menn bara gaumgæfa mjög vel hvað þeir eru að gera og það hefur verið mjög góður samhljómur í þingflokknum," segir Bjarni. Hann telji ekki ástæðu til að hafa þær miklu áhyggjur sem margir hafi í þessu máli.

Formenn stjórnmálaflokka þurfi að þola gagnrýni

Umræðan um orkupakkann hafi að hans mati ekki veikt stöðu hans sem formanns.  „Ég finn ekki fyrir því, ég hef hins vegar gengið í gegnum allskonar tíma og menn vera að gera ráð fyrir því sem leiða stjórnmálaflokka að þeir þurfa að þola gagnrýni." Hann segir málið hafa verið vel unnið en hann beri jafnframt virðingu fyrir þeim skoðunum sem fram hafi komið.

 

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður