Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ummæli ráðherra „ansi billeg“

19.07.2016 - 21:49
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. - Mynd: RÚV / RÚV
Ummæli félags- og húsnæðismálaráðherra um að Framsókarmenn hafi staðið í slagsmálum við samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn um framlög til velferðarmála, eru billeg segir þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði í fyrri fréttum sjónvarps að Sjálfstæðismenn leggi meiri áherslu á að lækka skatta og skuldir ríkissjóðs, en að styðja við heimilin í landinu.

Guðlaugur Þór Þórðarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar, furðar sig á ummælum Eyglóar.

„Það er nú ekki eins og það nýtist ekki heimlium í landinu ef að það eru lækkaðir skattar, það kemur heimilunum beint til góða. Það skiptir ekki hvort það eru lækkanir skatta á heimili eða á fyrirtæki. Það er nú ekki þannig að lífið sé excel skjal. Þvert á móti þarftu að vera með umhverfi til þess að atvinnulífið geti blómstrað sem að mun nýtast fólkinu í landinu með beinum hætti,“ segir Guðlaugur.

Hann segir að Eygló hefði sjálf getað forgangsraðað öðruvísi í sínum málaflokkum, til að mynda í tilfelli Íbúðalánasjóðs.  

„Ég verð nú að segja það, þegar maður heyrir þessi ummæli, sem mér finnst nú vera ansi billeg svo ekki sé dýpra í árinni tekið, þá hefði nú verið hægt að spara í ýmislegt sem enginn geti talið til velferðarmála. Til dæmis að setja milljarða og jafnvel milljarða tugi í banka sem að enginn vill eiga viðskipti við. Þá er ég að vísa í Íbúðalánasjóð.“

Að mati þingmannsins hefðu Íslendingar ekki náð að vinna sig út úr hruninu, nema vegna þess að ríkissjóður varð skuldlaus. Hann segir ummæli Eyglóar bera þess merki að kosningar séu í vændum.

„Það er augljóst þegar maður hlustar á þessi ummæli sem koma korteri fyrir kosningar og standast í rauninni ekki nokkra einustu skoðun og ýmsilegt tekið úr samhengi að það er ekki hægt að skýra þetta með neinu öðru en kosningaskjálfta. Það er miður,“ segir Guðlaugur Þór.

 

 

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður