Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Umhverfisstofnun vill skýrari leikreglur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í íslenskum lögum eru engin fyrirmæli um hvaða gæðakröfur skuli gera til fyrirtækja sem opinberar stofnanir kolefnisjafna sig hjá. Fyrirtækin tvö sem bjóða kolefnisjöfnun á Íslandi hafa ekki á stefnuskránni að sækja sér alþjóðlegar vottanir. Sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun segir mikilvægt að skýra leikreglur. 

Kolefnisjöfnun felur í stuttu máli í sér að bæta fyrir eigin kolefnislosun með því að fjármagna verkefni sem annað hvort koma í veg fyrir losun á samsvarandi magni af gróðurhúsalofttegundum eða fjarlægja samsvarandi magn úr andrúmsloftinu. Þetta þýðir engin nettólosun. Með því að endurheimta votlendi er komið í veg fyrir losun vegna landnotkunar og með því að rækta skóg er kolefnið smám saman fjarlægt úr andrúmsloftinu eftir því sem trén stækka og binda meira. Hér á landi hefur borið mest á þessum tveimur leiðum en það eru til fleiri, til dæmis er hægt að kolefnisjafna með því að styðja við sjálfbær verkefni annars staðar á hnettinum eða veita fé til aukinnar framleiðslu á endurnýjanlegri orku.

Snúið fyrir umhverfisstofnun að sinna ráðgjöf án vottana

Segjum að einhver ríkisstofnun hyggist kolefnisjafna reksturinn og leiti ráða hjá Umhverfisstofnun, spyrji hvort æskilegra sé að skipta við, Kolvið eða Votlendissjóð. „Það er dálítið erfitt fyrir Umhverfisstofnun að mæla með einum fram yfir annan jafnvel þegar það er ekki samræmi að öllu leyti á milli þessara aðila. Við erum komin með þetta nýja hlutverk í frumvarpi um loftslagslögin þar sem við eigum að vera til ráðgjafar fyrir ríkisstofnanir um þeirra loftslagsmál og við teljum að það sé mjög mikilvægt að það komist skýr mynd á þetta, hverju við getum raunverulega mælt með, við vonumst því til þess að þessir aðilar taki upp alþjóðlegar vottanir,“ segir Elva Rakel Jónsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun.

Í dag eru sjóðirnir bara tveir hér á landi en í framtíðinni verða þeir kannski fleiri og án vottana telur Elva Rakel að það yrði flókið fyrir Umhverfisstofnun að sinna ráðgjafarhlutverkinu. Verði ekki breyting á er mögulegt að í framtíðinni ráðleggi Umhverfisstofnun opinberum stofnunum frekar að kolefnisjafna sig í gegnum erlenda og þá alþjóðlega vottaða sjóði.

Leið til að forðast grænþvottargrun

Í minnisblaði sem ráðgjafarfyrirtækið Environice vann fyrir Umhverfisstofnun segir að kolefnisjöfnun Kolviðar og Votlendissjóðs, byggist á innlendum vottunarferlum sem komið hafi verið á fót af þeim sjálfum. 
Elva segir að íslensku kolefnisjöfnunarsjóðirnir séu góðir og sífellt að bæta við sig þekkingu en það sé mikilvægt að þeir fylgi alþjóðlegri þróun. „Við þurfum að passa upp á að við séum að þróast í takt við það sem er að gerast alþjóðlega þar sem eru til staðlar fyrir bindingu og vottunaraðilar sem taka út og votta þau fyrirtæki sem mega þá bjóða upp á og selja bindingu. Ef við horfum bara til annarra vottunarkerfa, til að mynda umhverfismerkja, þá er mjög erfitt fyrir aðila að sýna fram á umhverfislegt ágæti ef þeir eru ekki með stuðning frá stórum, alþjóðlegum vottunum. Þetta er leið til að taka af allan vafa um það og líka auðveldar þetta þá mönnum að markaðssetja sig og sýna með ábyrgum hætti að þetta sé sá árangur sem fyrirtækið nái og hann hafi verið tekinn út af þriðja aðila. Þetta er leið til að fjarlægja sjálfan sig frá því sem stundum er talað um sem grænþvott þannig að það geti enginn efast um að þarna sé enginn grænþvottur á ferð.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons

Líklega dýrt að votta 

Spegillinn spurði Bjarna Jónsson, framkvæmdastjóra Votlendissjóðs hvort þar á bæ stæði til að afla alþjóðlegrar vottunar. „Nei, hún hefur ekki komið til tals og ég er nú að heyra þetta í fyrsta skipti. Hins vegar er það alveg rétt að í kringum svona starfsemi þarf að eiga sér stað ferli sem er mjög gagnsætt þannig að það sé hægt að staðfesta það sem sagt er og lofað er. Þannig að þegar við lofum því að það sé tiltekin losun sem er stöðvuð sé hún á endanum staðfest á einhvern hátt. Við gerum þetta þannig í dag að Landgræðslan metur viðkomandi landsvæði sem við erum að endurheimta og út frá þeirra tölum og mælingum getum við staðfest það gagnvart viðskiptavinum okkar að viðkomandi losun hafi verið stöðvuð.“

Bjarni segir að sjálfsagt megi skoða það að kaupa alþjóðlega vottun en að það sé eflaust mjög dýrt ferli og myndi þá leiða til þess að það yrði dýrara að kolefnisjafna losun hjá fyrirtækinu. Bjarni telur að hægt verði að koma upp kerfi hér sem jafnast á við erlent vottunarkerfi og þá hægt að styðjast við stofnanir á borð við Landgræðsluna, það gæti þá verið sambærileg vottun fyrir öll fyrirtækin sem bjóða kolefnisjöfnun á Íslandi. En lítur Bjarni á Landgræðsluna sem óháðan þriðja aðila? „Nei, í sjálfu sér ekki en hún er náttúrulega sú stofnun sem mun hafa umsjón með þessum málum næsta áratuginn. Þar til annað kemur í ljós tel ég hana vera heppilega stofnun til að gefa út þessa vottun.“ 

Telur árangurinn vel rekjanlegan

Einar Gunnarsson, sem situr í stjórn kolefnisjöfnunarsjóðsins Kolviðar, telur ekki brýna þörf á alþjóðlegum vottunum eins og staðan er í dag. „Það væri ekki nema það væri svona markaðsþrýstingur, ef við værum mikið að vinna fyrir fyrirtæki á alþjóðamarkaði sem eitthvað kallaði á slíkt. Við teljum það sem við erum að gera vel rekjanlegt og við teljum okkur vera með það sem til þarf til að sýna fram á árangur af okkar starfi.“ Einar segir KPMG vakta fjármál sjóðsins, þá kaupi sjóðurinn reglulega þjónustu íslenskrar skógarúttektar á Mógilsá sem vaktar og rannsakar bindingu í íslenskum skógum. Hvert tré í loftslagsskógum Kolviðar sé svo í raun lifandi síriti um árangurinn og auðvelt að nálgast upplýsingar um hversu mikið hafi bundist. Einar segir ekki víst að alþjóðlegir staðlar eigi við hér. 

Geta smalað starfsfólkinu í rútur og ekið upp í sveit

Spegillinn spurði Elvu Rakel hvort hver sem er gæti stofnað fyrirtæki, plantað trjám og selt kolefnisjöfnunarvottorð. „Ég veit ekki betur,“ sagði hún. Leiðirnar eru misformlegar. Ef íslenskt fyrirtæki segist hafa kolefnisjafnað sig er ekki ljóst hvað það nákvæmlega gerði. Það kann að hafa kolefnisjafnað sig í samvinnu við sérstakan sjóð, íslenskan eða útlenskan. Það kann líka að vera að forsvarsmenn þess hafi með hjálp staðla á netinu reiknað út hversu margar plöntur þurfi að gróðursetja til að jafna losun fyrirtækisins, smalað starfsmönnum upp í rútur og gróðursett einhvers staðar uppi í sveit. Skógræktarfélögin hafa, að sögn Elvu Rakelar, hjálpað fyrirtækjum við slíkt. Hún segir að það sé æskilegt að hafa skýran ramma utan um þetta, svo það liggi fyrir hvað verið sé að binda, eins sé æskilegt að fá sérfræðiráðgjöf um hvaða plöntur sé best að gróðursetja hvar. Hún segir þetta frábært framtak hjá fyrirtækjum og gott fyrir félagsandann en leggur áherslu á að fyrirtæki sem þetta gera lýsi ekki yfir kolefnishlutleysi án þess að hafa lagt vinnu í að meta losun sína nákvæmlega. „Kolefnishlutleysi er svolítið viðkvæmt hugtak, hugtak sem erfitt er að nota en auðvelt er að slá um sig með.“ 

Mynd með færslu
 Mynd:
Elva Rakel segir kolefnisjöfnun viðkvæmt hugtak.

 

Umhverfisráðherra vill skilgreiningu á kolefnisjöfnun í lög

Áform stjórnvalda tengd kolefnisjöfnun og hlutleysi eru fyrirferðarmikil og því mikilvægt að það liggi fyrir hvað þarf til að kolefnisjafna. Í nýlegu frumvarpi umhverfisráðherra til breytinga á lögum um loftslagsmál frá 2012 er lagt til að við lögin verði bætt skilgreiningu á kolefnisjöfnun, þetta var gert í kjölfar athugasemdar frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins sem bentu á að erfitt yrði að uppfylla kröfur loftslagsstefnu án slíkrar skilgreiningar. Verði breytingartillagan að lögum mun því verða skýrt að með kolefnisjöfnun sé átt við bindingu eða stöðvun losunar þannig að nettólosun verði engin. Ekkert er þó fjallað um hvernig skuli helst ná þessu fram eða hvaða kröfur skuli gera til fyrirtækja sem bjóða kolefnisjöfnun nú eða ráðast í hana sjálf. 

Engar reglur um kolefnisjöfnun á vegum hins opinbera

Stjórnvöld stefna að því að Ísland verði orðið kolefnishlutlaust árið 2040 og í nýlegu frumvarp er lagt til að allar stofnanir ríkisins setji sér stefnu um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun. Á þessu ári stendur til að kolefnisjafna rekstur Stjórnarráðsins og hvers ráðuneytis fyrir sig. Ráðuneytin ráða því hvaða leið þau fara til kolefnisjöfnunar, þau geta skipt við sjóði en starfsmönnum býðst líka að kolefnisjafna með því að gróðursetja á sérstöku landgræðslusvæði. Starfsfólk umhverfisráðuneytisins byrjaði raunar á því að kolefnisjafna reksturinn með þeim hætti í fyrra. 

Í íslenskum lögum eru engin fyrirmæli um hvaða gæðakröfur skuli gera til fyrirtækja sem opinberar stofnanir velja að kolefnisjafna sig hjá. 

Ráðgjafarfyrirtækið Environice vann nýlega minnisblað fyrir Umhverfisstofnun með punktum um hvaða kröfur væri æskilegt að ríkið gerði til þeirra fyrirtækja sem tækju að sér að jafna út kolefnisfótspor þess. 

Í því segir að stjórnvöld þurfi að skilgreina nánar hvað felist í kolefnishlutleysi og hvernig opinberir aðilar geti notað kolefnisjöfnun til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi, það þurfi að ákveða hvernig verkefni verða viðurkennd og hvaða kröfur skuli gera til þeirra sem selja ríkinu kolefnisjöfnun. 

Ráðuneytin verði kolefnisjöfnuð í samræmi við vottaða útreikninga

Í Loftslagsstefnu Stjórnarráðsins segir að það verði tryggt að kolefnisjöfnun þess og ráðuneyta fylgi vottuðum vísindalegum útreikningum og byggist á viðurkenndum viðmiðum um gagnsæi og rekjanleika. Unnið er að reglum sem eiga að tryggja samræmda nálgun.

Mæla með lágmarkskröfum alþjóðlegra samtaka

Í minnisblaðinu frá Environice segir að það séu ekki til neinar samræmdar alþjóðlegar reglur um hvernig verkefni geti fengist viðurkennd sem kolefnisjöfnunarverkefni en að á síðustu árum hafi þróast tilteknar lágmarkskröfur um gerð og eiginleika slíkra verkefna. Þá hafi þróast margs konar alþjóðlegir staðlar og vottunarferli í kringum kolefnisjöfnun.

Environice mælir í minnisblaðinu með því að sjö lágmarkskröfur séu gerðar við kaup opinberra aðila á kolefnisjöfnun og horfir þar til viðmiða alþjóðasamtaka fyrirtækja sem selja kolefnisjöfnun, ICRAO. Kröfurnar eru þær að:

  • Árangur af kolefnisjöfnuninni sé raunverulegur. 
  • Það sé hægt að mæla hann með viðurkenndum aðferðum. 
  • Hann sé varanlegur og gangi ekki til baka. 
  • Að óháður vottunaraðili staðfesti árangurinn.
  • Að fyrirtækið tryggi að verkefnið leiði ekki til kolefnisleka, það er að losunin sem var stöðvuð á einum stað flytjist ekki annað.
  • Að fyrirtækið komi í veg fyrir tvítalningu, fái ekki greitt margsinnis fyrir að binda sama tonnið af koltvísýringi. 
  •  Að fyrirtækið tryggi að árangurinn sem næst sé raunverulega til kominn vegna þess að einhver greiddi fyrir kolefnisjöfnun, að hann hefði ekki náðst hvort eð er.

Þetta eru lágmarkskröfur en í minnisblaðinu segir að dæmi séu um að gerðar séu viðbótarkröfur um samfélagslegan, efnahagslegan eða umhverfislegan hliðarávinning verkefna eða um að verkefni stuðli að sjálfbærri þróun. 

Takmörkuð reynsla og til ýmis að líta

Í minnisblaðinu kemur fram að takmörkuð reynsla sé komin á viðskipti með kolefnisjöfnun hér á landi og þörf á mun ítarlegri greiningu á æskilegum gæðakröfum með hliðsjón af markmiðum og áherslum stjórnvalda. Það þurfi að huga að ýmsum þáttum svo sem reglum um opinber innkaup, eignarréttarlegum álitaefnum, aðkomu ríkisins að kolefnisjöfnunarverkefnum einkaaðila og skatta- og viðskiptalegri meðferð kolefnisjöfnunarvottorða svo dæmi séu nefnd. Í lokin hnykkir ráðgjafarfyrirtækið á því að áður en opinberir aðilar taki ákvörðun um að kaupa kolefnisjöfnun ætti ávallt að leggja áherslu á að draga úr losun, eingöngu ætti að líta á kolefnisjöfnun sem möguleika til að bæta fyrir losun sem ekki sé unnt að koma í veg fyrir. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV