Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Umhverfisráðherra lætur loka átta hellum

06.01.2020 - 22:05
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Umhverfisráðherra hefur farið fram á það við Umhverfisstofnun að átta viðkvæmum hellum á landinu verði lokað. Þar á meðal er hellir í Þeistareykjahrauni sem sagt var frá í fréttum í gær. Landsvirkjun segir að hellirinn hafi ekki verið þekktur þegar vegur var lagður um hraunið og upplýsingaskilti sett upp.

Um það bil tvöþúsund og fimmhundruð ára gamall ósnortinn dropsteinshellir uppgötvaðist nýverið í Þeistareykjahrauni. Félagar í Hellarannsóknafélaginu óttast að afar viðkvæmar hraunmyndanir í honum verði eyðilagðar, eins og fram kom í fréttum í gær. Vegur sem nýlega var lagður í gegnum hraunið til og frá Þeistareykjavirkjun eykur mjög á umferð í nágrenni hans og annarra hella í hrauninu. 

Sjá einnig: Fundu 2.500 ára ósnortna náttúruperlu

„Við kölluðum eftir tillögum frá Náttúrufræðistofnun, sennilega í fyrra, um hvaða hella væri æskilegt að ráðast í að friðlýsa,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra. „Við fengum átta tillögur, og þar á meðal í þessu hrauni. Fyrsta verkefnið sem við höfum þegar falið Umhverfisstofnun og gerðum það fyrir jólin, er að loka þessum hellum til þess að vernda þessar ótrúlegu náttúruminjar sem þarna er að finna. Og í öðru lagi, þegar búið er að loka þeim, að ráðast í að kanna með friðlýsingu þeirra.“

Fjórir hellanna eru í Þeistareykjahrauni, en hinir fjórir eru annars staðar á landinu.

„Við höfum þegar hafið vinnu við að kanna friðlýsingarmöguleika og sömuleiðis höfum við hafið vinnu við undirbúning að lokun þessara hella,“ segir Ólafur Arnar Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun. „Þannig að þetta eru aðgerðir sem geta vonandi farið af stað á næstu örfáu vikum.“

Fjármögnun tryggð

Í bréfi ráðherra til stofnunarinnar segir að mikilvægt sé að samráð verði haft við Hellarannsóknafélagið. Þremur friðlýstum hellum hefur áður verið lokað hér á landi, en það er gert með læstum hlerum eða hliðum. Hugmyndin er að stýra aðgengi að hellunum þannig að hægt sé að fara með fólk í leiðsögn um þá.

„Í forgangi er að fara í hellana í Þeistareykjahrauni. Og þessi hellir sem birtist í fréttum í gær, hann er í forgangi,“ segir Ólafur. Það geti kostað frá hálfri milljón upp í nokkrar milljónir að loka einum helli.

„Við munum fjármagna þetta af þeim sjóðum sem við eigum hér, innviðasjóðnum væntanlega, til uppbyggingar staða sem heyra undir friðlýst svæði og annað slíkt, þannig að ég held að það sé verkefni sem við getum vel klofið,“ segir Guðmundur Ingi.

Vissu ekki af hellunum

Fréttastofa óskaði í dag eftir viðbrögðum frá Landsvirkjun við málinu, en fyrirtækið rekur Þeistareykjavirkjun. Svar fyrirtækisins er eftirfarandi:

Landsvirkjun er umhugað um verndun dýrmætra dropsteinshella sem fundist hafa á jarðhitasvæðinu á Þeistareykjum. Fyrirtækið hefur af þeim sökum átt samskipti og fundi með fulltrúum sveitarfélagsins, Umhverfisstofnunar og Hellarannsóknarfélagsins til að koma málinu í réttan farveg. Málið er nú til skoðunar hjá þessum aðilum og er beðið ákvörðunar um framhaldið.

Landsvirkjun hefur sjálf ekki heimildir til að loka einstaka hellum. Landið sem um ræðir er ekki í eigu Landsvirkjunar heldur Þingeyjarsveitar. Þá liggur fyrir að til að takmarka megi aðgang að náttúru eins og hellasvæðisins sem um ræðir þarf aðkomu og ákvörðun viðeigandi stjórnsýslustofnana, umhverfisráðuneytis, Umhverfisstofnunar, sveitarfélagsins og jafnvel fleiri hagaðila.

Landsvirkjun hefur ekki útilokað að styrkja með einhverjum hætti það verkefni að loka nýfundnum dropsteinshelli í umhverfi Þeistareykja svo verja megi hann ágangi. Hins vegar verða viðeigandi stjórnvöld og landeigandi fyrst að taka ákvörðun um lokun hellisins og með hvaða hætti slík aðgerð yrði framkvæmd.

Á upplýsingaskiltum Landsvirkjunar sem sett voru upp á sínum tíma var verið að lýsa náttúru í nágrenni jarðhitasvæðisins á Þeistareykjum samkvæmt þekktum heimildum. Ekki var bent á staðsetningu neinna dropsteinshella á korti á þeim skiltum. Sérstaklega var tekið fram í texta að hellar á svæðinu gætu verið varasamir inngöngu og hættulegir. Einnig kom fram að dropsteinshellar væru friðlýstir og bannað að brjóta eða skemma þá á nokkurn hátt.

Hinn nýfundni dropsteinshellir var ekki þekktur þegar vegurinn var lagður og skiltin voru sett upp. Í framhaldi af því að fulltrúar frá Hellarannsóknafélaginu bentu Landsvirkjun á hættuna af því að texti á skiltum við þjóðveginn gæti leitt af sér að ferðamenn færu að leita að nýfundnum dropsteinshelli var brugðist við og voru skiltin fjarlægð. Merking/yfirstrikun sem var sett yfir texta á skilti á öðrum stað veðraðist því miður af en textinn var síðar fjarlægður. Upplýsingar á skilti sem sýnt var í fréttum RÚV í gær voru fjarlægðar í haust, talsvert áður en fréttin birtist.

Rétt er að taka fram að tilvist dropsteinshella almennt á svæðinu hefur verið þekkt og hefur verið getið í opinberum gögnum s.s. svæðisskipulagi frá 2008 þar sem segir m.a.: „Í Þeistareykjahrauni, eru nokkrir hellar, þar á meðal dropsteinahellar. Dropsteinar eru friðlýst náttúruvætti skv. auglýsingu nr. 120/1974. Til dropsteinamyndana teljast bæði dropsteinsdrönglar sem hanga niður úr hellisþökum, svo og dropsteinakerti sem standa á hellisgólfum og syllum hellisveggja.“