Umhverfisráðherra kominn í sóttkví

23.03.2020 - 10:20
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra er kominn í sóttkví eftir að samstarfskona hans í ráðuneytinu greindist með COVID-19 veiruna. Smitrakningarteymið hringdi í ráðherrann í gær. „Ég hef ekki fundið fyrir neinum einkennum og líður vel,“ segir Guðmundur á Facebook. Eftir því sem fréttastofa kemst næst er hann fyrsti ráðherrann sem fer í sóttkví. 

„Hugur manns þessa dagana er auðvitað hjá þeim sem eru veik og hjá öllu heilbrigðisstarfsfólkinu okkar, kennurum, almannavörnum og öðrum sem halda grunnþjónustunni gangandi. Ég tek hatt minn ofan fyrir ykkur öllum!,“ segir Guðmundur. 

Nú sé bara að aðlaga sig nýjum aðstæðum. „Ég fór t.d. ekki á ríkisstjórnarfund í gær og við tekur að vinna að heiman, sem er lítið mál með fjarfundi og tölvu,“ segir hann. 

Sjá einnig: Þingmaður greinist með COVID-19

Nokkrir þingmenn hafa farið í sóttkví vegna veirunnar. Í gærkvöldi sagði Smári McCarthy, þingmaður Pírata, síðan frá því að hann væri með staðfest smit. 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi