Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Umhverfisgjöld á flugfarþega til skoðunar

06.10.2019 - 18:04
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að skoða þurfi allar hugmyndir þegar kemur að loftslagsmálum. Til greina komi að leggja sérstök gjöld á flugfarþega sem verði miðuð við mengun flugleiðar. 

Umræða um mengun vegna flugs hefur verið áberandi að undanförnu. Hugtökin flugviskubit eða flugskömm hafa skotið upp kollinum og fólk ýmist dregur úr flugferðum eins og kostur er eða kolefnisjafnar ferðir sínar. 
 
Dönsk flugfélög og flugvellir hafa lagt það til að lagður verði sérstakur loftslagsskattur á farþega sem fljúga frá Danmörku til að draga úr mengun af flugi. Skatturinn á að miðast við lengd flugleiðarinnar og renna í ohadan sjóð sem nýtist í rannsóknir á grænum lausnum í flugrekstri. 

„Mér finnst þetta góð hugmynd. Hún er áhugaverð. Það er sérstaklega áhugavert líka að hún er að koma frá flugrekstrarhöfunum sjálfum, flugvöllunum og flugfélögunum. Það sýnir ákveðinn vilja þeirra til þess að taka þátt í þessu stóra verkefni sem loftslagsmálin eru,“ segir Guðmundur. 

Áætlað er að skatturinn muni kosta farþega um 250 til 300 milljónir danskra króna eða tæpa fimm milljarða íslenskra á ári. Um 18,2 milljónir farþega flugu frá Danmörku á síðasta ári. Því má áætla að farþegar borgi rúmlega 16 krónur danskar að meðaltali á flugferð eða rúmar 300 íslenskar. 

Vonast er til að tillagan verði að veruleika strax á næsta ári en málið er á borði danskra stjórnvalda. Svipaðar hugmyndir hafa verið til skoðunar hér, að sögn Guðmundar.

„Ferðamálaráðherra er með hóp í gangi sem er að skoða gjaldtökumál í ferðaþjónustu og þar hefur náttúrulega komið til umræðu komu- og brottfaragjöld, gistináttaskattur og fleira. Ég veit að það hefur verið skoðað eða er verið að skoða hvort að einhvers konar komu- eða brottfarargjald gæti verið tengt við kolefnisspor og þá útlosun gróðurhúsalofttegunda, því það er mismikið eftir því hversu langt er verið að fara og svo framvegis. Þannig að íslensk stjórnvöld hafa haft þetta til skoðunar. “

Tillögur hafi þó ekki verið lagðar fram og enn á eftir að ræða mögulegar útfærslur á gjöldum á farþega, kæmi til þeirra.  

„Mér finnst allt svona koma til greina og við þurfum að skoða allar hugmyndir þegar kemur að loftslagsmálum. Það verður bara áhugavert að sjá hvernig þetta þróast bæði hjá okkur og annars staðar.“