Stefán Magnússon, sölustjóri hjá CCEP, segir litlar umbúðir í sókn, um þriðjungur alls kóks sé nú seldur í gleri eða dós, í stað þess að fjárfesta í nýjum vélum hér hafi fyrirtækið séð tækifæri í því að flytja framleiðsluna á þessum drykkjum til samstarfsaðilans í Svíþjóð.
„Í sjálfu sér erum við að nýta fyrirliggjandi tækjakost og framleiðslulínur, það er verið að framleiða meira magn þar og stærri framleiðslulotur þannig að það er eitthvað hagkvæmara en á móti kemur að flutningskostnaður til Íslands er talsvert hár og það að framleiða á Íslandi býður upp á miklu meiri sveigjanleika, styttri tími til að bregðast við eftirspurn og svoleiðis. Báðar leiðir hafa kosti og galla. Það er alltaf gengisáhætta í að kaupa vörur erlendis frá en á móti kemur að innlenda framleiðslan fylgir innlendum kostnaðarbreytingum. Það má eiginlega segja að þetta sé mjög svipað til lengri tíma litið.“
Ná sporinu niður með öðrum aðgerðum
Var fyrirtækið eitthvað að velta fyrir sér kolefnisspori flutninganna þegar tekin var ákvörðun um að fara að flytja inn átappað gos í meiri mæli? „Já við gerðum það, þetta er einn af þessum mælikvörðum sem við fylgjumst náið með. Við höfum sem fyrirtæki sett okkur markmið í sjálfbærnimálum, erum með 21 mælanlegt markmið til ársins 2025. Við höfum það að markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 50% fyrir árið 2025.
Kemur þetta þá ekki í bakið á ykkur, þessir flutningar á fullum umbúðum?
„Jú, en á móti kemur að við erum með margar aðgerðir til að minnka okkar losun, til dæmis erum við byrjuð að nota endurunnið plast í plastflöskurnar, svokallað R-pet, þannig að 25% af plasti í öllum minni umbúðum er endurunnið. Svo höfum við verið að skipta út plastfilmum á ytri umbúðum fyrir pappa og létta plastflöskurnar.“
Gaf ekki svigrúm til verðlækkana
Stefán segir það að flytja dósir og glerflöskur átappaðar inn ekki hafa veitt svigrúm til að lækka verð, vegna flutningskostnaðarins. „Verðlagningin er bara eins og alltaf háð eftirspurn og markaðsaðstæðum, hér er mikil samkeppni á markaði og við erum háð markaðsöflunum þegar við verðleggjum okkar vöru.“ Fyrirtækið tappar áfram kóki á plastflöskur hér, Stefán segir ekki borga sig að gera það ytra. Þrátt fyrir sænska kókið sé CCEP fyrst og fremst framleiðslufyrirtæki. „Við flytjum inn einn þriðja af óáfengu drykkjarvörunum en tveir þriðju hlutar eru framleiddir hér og 95% af öllum bjór sem við seljum eru framleidd í brugghúsinu á Akureyri.“
Stökk og svo hægari vöxtur, nema í dósunum
Frá stökkinu í maí 2017 hefur vöxturinn í innflutningi á ýmsum vatnsblönduðum drykkjum verið hægari. Fyrstu sjö mánuði þessa árs jókst innflutningur um 11,7% miðað við sama tímabil í fyrra. Dósirnar skera sig reyndar úr. Þar var 37% vöxtur á þessu tímabili. Að einhverju leiti má rekja það til sænska kóksins en orkudrykkjaæðið spilar örugglega líka inn í. Ársæll Þór Bjarnason, eigandi heildverslunarinnar sem flytur inn Nocco-drykkinn segir aukninguna hafa verið stöðuga frá því drykkurinn kom á markað 2015.
Það er áberandi vöxtur í innflutningi á áldósum frá Svíþjóð. Í janúar 2017 komu tæplega 25 tonn af áldósum siglandi frá Svíaríki, í júlí 2019 voru tonnin 719, tæplega þrjátíu sinnum fleiri. Þetta er líklega sænska kókið.
Ávaxtasafar ekki með
Þeir drykkir sem hér hefur verið fjallað um eru auðvitað bara hluti af öllum þeim vatnsblönduðu drykkjum sem fluttir eru tilbúnir til landsins, það eru líka fluttir inn ýmsir ávaxta- og grænmetissafar sem eru framleiddir úr þykkni erlendis. Nýlega hvarf vörumerkið Trópí til dæmis af sjónarsviðinu. Þessi íslenski systursafi Minute Maid appelsínusafans var áður framleiddur hér úr þykkni en er nú fluttur til landsins undir alþjóðlega vörumerkinu sem heyrir undir CCEP.