Fyrirhugað er að opna fyrir umferð um nýjan Suðurlandsveg milli Hveragerðis og Kotstrandakirkju á morgun. Opnunin nær þó aðeins til hluta vegarins til að byrja með.
Aðeins önnur akreinin af tveimur í austurátt verður opnuð fyrir umferð á morgun. Við brú yfir Gljúfurholtsá verður umferð í vesturátt hleypt á aðra akreinanna sem liggja í austur, en svo beint yfir á akrein á rétta akrein rétt vestan við brúnna, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.
Umferðarhraði á þessum kafla verður 50 kílómetrar á klukkustund á meðan framkvæmdir standa yfir, en við austurendann við Gljúfurholtsá verður hámarkshraðinn 30 kílómetrar á klukkustund. Í tilkynningu Vegagerðarinnar er þeirri von lýst að vegfarendur virði hraðatakmarkanirnar og öllum vegmerkingum fylgt.