Umdeilt frumvarp formlega dregið til baka

04.09.2019 - 10:41
Erlent · Asía · Hong Kong · Kína
epa07813865 Hong Kong Chief Executive Carrie Lam attends a press conference at the government offices in Hong Kong, China, 03 September 2019. According to reports Lam has told a group of business leaders that she's sorry for the 'unforgivable havoc' caused by her attempts to pass the extradition bill, while admitting she had limited scope to resolve the crisis as Sino-US tensions increase. Hong Kong has been gripped by mass protests since June over a now-suspended extradition bill that have morphed into a wider anti-government movement.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
Carrie Lam. Mynd: EPA-EFE - EPA
Umdeilt frumvarp sem varð kveikjan af mótmælunum Hong Kong hefur verið dregið til baka. Carrie Lam, leiðtogi heimastjórnarinnar, tilkynnti þetta í ávarpi til íbúa í morgun. 

Mótmælin í Hong Kong hófust þegar frumvarpið var lagt fram í júní, en í því er kveðið á um heimild til að framselja brotafólk til meginlands Kína. Það breytti litlu þótt hætt hefði verið við afgreiðslu þess, því mótmælendur kröfðust þess að það yrði formlega dregið til baka.

Þegar fregnir bárust af því í morgun að Lam ætlaði hætta við frumvarpið og leggja það alveg á hilluna, varð mikil uppsveifla á hlutabréfamarkaði í Hong Kong.

Forystumenn mótmælenda voru þó ekki ánægðir og einn þeirra Joshua Wong sagði of lítið gert og of seint brugðist við. Stjórnvöld í Hong Kong og Peking hefðu í raun ekkert gefið eftir og búast mætti við áframhaldandi aðgerðum þeirra gegn öllu andófi.

Auk þess að fara fram á að frumvarpið yrði dregið til baka hafa mótmælendur gert fleiri kröfur, meðal annars um óháða rannsókn á framgöngu lögreglu, að þeim sem handteknir hefðu verið í mótmælum yrðu gefnar upp sakir og að stjórnvöld í Peking hefðu ekki afskipti af kosningum í Hong Kong. Mótmælendur heita frekari aðgerðum til að fylgja eftir kröfum sínum.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi