
Fréttastofa greindi frá því í sumar að byrjað væri að taka aðgang að kirkjunni. Kirkjuráð hefði tekið ákvörðun um gjaldtökuna og hófst hún í vor. Miðað var við að einstaklingar greiddu 500 krónur ef þeir væru einir á ferð. Ef fólk kæmi í fólksbílum greiddu allir í bílnum 750 krónur samanlagt, 1500 krónur væru innheimtar fyrir meðalstóra bíla og 3000 krónur fyrir rútur. Vígslubiskup sagði gjaldið gagnast fyrir rekstur á kirkjunni. Ekkert gjald væri tekið fyrir aðgang þegar kirkjulegar athafnir færu fram.
Sóknarpresturinn var í veikindaleyfi þegar ákvörðun um gjaldtöku var tekin. Hann segist vonast til þess að slíkir tilburðir verði ekki aftur. „Kirkja er ekkert venjulegt hús. Hún er opinn faðmur Guðs. Þetta er ekki samkomusalur eða listasafn. Þetta er heilagt hús og þess vegna gengur þetta ekki,“ sagði Egill.
Um árabil hefur verið innheimt gjald fyrir þá sem vilja sjá sýningu í kjallara kirkjunnar. Það gjald verður áfram innheimt en tekið er skýrt fram á miða sem blasir við fólki þegar það gengur niður í kjallarann að aðgangur að kirkjunni sjálfri sé ókeypis.