Umboðsmaður snuprar heilbrigðiseftirlit vegna bíls

30.01.2020 - 13:17
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - Kveikur
Umboðsmaður Alþingis telur að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi ekki farið að lögum þegar það lét fjarlægja númerslausan bíl af einkalóð. Eigandi bílsins sagðist ekki hafa vitað að til stæði að fjarlægja bílinn og tilkynnti lögreglu að honum hefði verið stolið.

Í áliti umboðsmanns kemur fram að í ágúst fyrir tveimur árum hafi starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja límt miða á bílinn þar sem eigandanum var gert að fjarlægja hann og gefinn vikufrestur til þess.  Tuttugu og tveimur dögum seinna var bíllinn fjarlægður og komið fyrir geymsluporti Vöku.

Sagðist ekki hafa séð miðann

Eigandi bílsins kærði þetta til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem hafnaði kröfu hennar um að fella bæri ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins úr gild. Í kærunni kom fram að eiginmaður hennar hefði lagst inn á sjúkrahús níu dögum eftir að límmiðinn var límdur á bílinn og svo aftur nokkrum dögum seinna. Hann hefði því lítið farið út úr húsi. 

Sjálf hefði hún verið mest inni við og hvorugt þeirra því vitað af viðvörunarmiðanum. Það hefði raunar ekki verið fyrr en kunningi þeirra kom í heimsókn að þau fréttu að bíllinn væri horfinn. Hún hefði þá hringt í lögregluna og tilkynnt um stolinn bíl. Við nánari eftirgrennslan kom hið sanna í ljós, heilbrigðiseftirlitið hafði fjarlægt bílinn.  

Bónaður og þrifinn en lítið keyrður

Konan sagði jafnframt að bíllinn hefði verið keyptur 2011 en verið lítið keyrður, eða 96 þúsund kílómetra. Hann hefði eingöngu verið tekinn af númerum til að spara tryggingakostnað þar sem ekki hefði verið þörf á bílnum.

Eiginmaður hennar hefði átt erfitt með akstur og hún væri sjálf ekki með ökuskírteini. Bíllinn hefði verið þveginn og bónaður reglulega og ekkert ryð að sjá fyrir utan einn blett.

Umboðsmaður tuktar stjórnvöld til

Umboðsmaður gefur lítið fyrir skýringar stjórnvalda í áliti sínu. Hann bendir til að mynda á að bíllinn hafi staðið á bílastæði, inni á einkalóð fyrir framan hús konunnar sem sé tvíbýli.

Þetta hafi því ekki verið bíll sem hafi verið skilinn eftir á víðavangi eða þar sem erfitt hefði verið að hafa upp á eiganda hans. „Má ætla að eigandi fasteignarinnar geti almennt upplýst um bíl sem stendur við hús hans á bílastæði á einkalóð, þ.e. ef hann hefur ekki tilkynnt um óþekktan bíl á lóðinni.“

Stóð við hús eigandans 

Heilbrigðiseftirlitinu hefði því verið í lófa lagið að kanna, meðal annars hjá eiganda fasteignarinnar þar sem bíllinn var, hvort vitað væri hver ætti umræddan bíl. Þannig hefði verið hægt að taka upplýsta ákvörðun. 

Þá hefði heilbrigðiseftirlitinu einnig átt að vera það ljóst að það að fjarlægja bílinn hafi verið verulega íþyngjandi fyrir eigandann. „ Ég minni á að upplýst er að bíllinn stóð við hús eigandans sem er tvíbýli og á stað þar sem gera mátti ráð fyrir að íbúar hússins legðu bifreiðum sínum.“

Umboðsmaður telur því að ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins og þar með úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála hafi ekki verið í samræmi við lög og beinir því til nefndarinnar að hún taki mál konunnar fyrir að nýju.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi