Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Umboðsmaður skuldara býst við umsóknum í vor

29.03.2020 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ásta Sigrún Helgadóttir umboðsmaður skuldara býst við að umsóknum um aðstoð muni fjölga í vor og sumar. Hún segir mjög eðlilegt að fólk í skertu starfshlutfalli eða það sem misst hafi vinnuna, sé kvíðið út af fjárhagnum, en til séu ýmsar aðferðir til lausnar. 

 

Á vefsíðu Umboðsmanns skuldara, ums.is, hafa verið settar inn upplýsingar um fjárhagsáhyggjur og erfiðleika á óvissutímum. Mikið er hringt til umboðsmanns þar sem svarað er í síma milli klukkan níu og þrjú og líka berst fjöldi skriflegra fyrirspurna. 

„Aðstaðan núna hjá fólki er að það er að missa vinnuna. Það er tekjuskerðing og annað. Þannig að ég sé fyrir að við munum fá aukningu á umsóknum svona í vor eða sumar“

Er ekki fólk dálítið hrætt að takast á við þetta?

„Jú, fjárhagsvandi er alltaf mjög erfiður og það er náttúrulega oft verið að kippa fótunum undan fjölskyldunni og fjárhagslegri framtíð. Auðvitað er fólk oft mjög kvíðið. Það er náttúrulega bara mjög eðlilegt. En það þarf þá náttúrulega að horfast í augu við þetta, reyna að finna lausnir,“ segir Ásta Sigrún Helgadóttir umboðsmaður skuldara.

Hún segir að þegar blasi við að tekjur skerðist hjá fólki þá þurfi fólk að taka stjórninga og fara yfir allar skuldbindingar sínar, eins og afborganir. Líka þurfi að skoða neysluna og athuga hvort eitthvað mætti spara. Þá sé gott sé að gera heimilisbókhald og áætlun. Á vefsíðu umboðsmanns er bæklingur sem heitir Kladdinn sem hægt er að nota sem fyrsta skref í fjármálunum. Og því næst er hægt að athuga hvort hægt sé að fresta greiðslum. Ásta bendir á að bæði lífeyrissjóðir og fjármálafyrirtæki hafi nú boðið upp á ýmis úrræði sem mikilvægt sé að kynna sér. Fólk sem er verulegum greiðslu- og skuldavanda getur farið í greiðsluaðlögun. Hún var sett á laggirnar eftir hrun og hefur komið mörgum til góða.

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV