Um þúsund skip á hafsbotni við Ísland

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Um þúsund skip á hafsbotni við Ísland

11.11.2019 - 09:30

Höfundar

Miðað við fjölda skipsflaka á hafsbotni var Eyrarbakki lengi vel aðalkaupstaður landsins segir Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur hjá Rannsóknasetri HÍ á Vestfjörðum. Hann hefur undanfarin ár unnið að því að kortleggja skipsflök á grunnsævi við Íslandsstrendur.

„Ég er náttúrlega fyrst og fremst að reyna að fá hugmynd um fjölda skipsflaka og það geri ég í gegnum vinnu með ritaðar heimildir. Íslendingar voru náttúrlega svo góðir í að skrifa svo þeir lýsa oft skipsskaðanum, hversu margir farast en gáfu líka landfræðilega staðsetningu,“ segir Ragnar.

Þannig fær Ragnar vísbendingu um á hvaða slóðum hann gæti fundið skipin. Við tekur leit og svo rannsókn á varðveislu þeirra, með ýmsum tækjum og köfun. Kortlagning skipsflakanna getur varpað ljósi á breytingar í tímans rás. 

„Það er mjög áhugavert að margt sem bendir til þess að höfuðstaður Íslands eða aðalkaupstaður Íslands hafi verið Eyrabakki, þar er stór skipakirkjugarður kaupskipa en fyrir utan Reykjavík er ekki sami fjöldi,“ segir Ragnar.

Rannsóknin nær aðeins til stórra þilfarsskipa en þrátt fyrir það er fjöldi þeirra mikill. „Frá 1200 fram til 1920 er ég komin með 400 skip sem gáfu upp landfræðilega staðsetningu, svo ég gat staðsett þau. Í heildina myndi ég halda, frá landnámi, að það hafi farist við Ísland, það er á grunnsævi, svona þúsund svona gróft áætlað en þau gætu verið fleiri.“