Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Um 800 manns á baráttufundi

30.01.2020 - 21:05
Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Um átta hundruð manns mættu á baráttufund BRSB, Félags hjúkrunarfræðinga og BHM í Háskólabíói í dag og var nær fullt út úr dyrum. Kjarasamningar félagsmanna þessara félaga hafa verið lausir í tíu mánuði.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, telur að það sé misjafnt eftir bandalögum hvort fólk sé tilbúið til að grípa til aðgerða í kjarabaráttunni. „Ég heyrði það á máli frummælenda hér í dag að það eru kannski ekki allir komnir í aðgerðagírinn en það hlýtur auðvitað að vera þannig þegar það fer að halla í eitt ár frá því að samningar losnuðu að fólk fari að hugsa sinn gang,“ sagði Þórunn í viðtali við Kristínu Sigurðardóttur, fréttamann síðdegis.

Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir ekki tímabært að segja til um það hvort gripið verði til aðgerða í kjarabaráttunni. „Það skýrist á næstu dögum hvort það verður boðað til atkvæðagreiðslna. Ef til þeirra kemur getur það haft þau áhrif að það lami almannaþjónustuna. Okkar fólk starfar hjá ríkinu og sveitarfélögum um allt land og við erum að horfa til samstilltra aðgerða.“

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga, tók í sama streng. Ekki sé hægt að segja til um það á þessum tímapunkti hvort gripið verði til aðgerða en að það styttist í að þolinmæðin verði á þrotum. Hún kveðst vilja að samningar verði kláraðir, það verði ekki auðveldara eftir því sem tíminn líði.