Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Um 500 flugfarþegar strandaðir á Egilsstöðum

04.10.2019 - 19:27
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Gerard van der Schaaf - Flickr
Farþegaþota Wizz Air sem kom frá Kraká í Póllandi hætti við að lenda á Keflavíkurflugvelli nú seinni partinn vegna veðurs. Vélin lenti þess í stað á Egilsstaðaflugvelli, en þar fá farþegar litlar sem engar upplýsingar og sitja enn um borð. 

Jórunn Edda Helgadóttir er um borð í vélinni og sagði við fréttastofu að upplýsingagjöf til farþega væri lítil. Hurðin sé enn lokuð og farþegum sagt að ef þeir fari frá borði þá geti þeir ekki komið um borð aftur. Þeir standi á eigin fótum ákveði þeir það. 

Búið er að boða það að vélin fari aftur til Krakár og farþegar geti þar fengið gistingu og nýtt flug, en vita ekki hvenær það getur orðið. Jórunn reiknar sjálf með að fara frá borði á Egilsstöðum, ekki síst þar sem alls er óvíst hvað verði gert fyrir farþega við komuna aftur til Póllands. 

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia var það flugfélagið sem tók þá ákvörðun að lenda á Egilsstöðum og eru tvær vélar Wizz Air nú lentar. Hin kom frá Wroclaw. Á þriðja hundrað farþegar eru í annarri og um tvö hundruð í hinni.  

Einhver hluti hópsins úr þessum tveimur vélum ætlar að fara frá borði á Egilsstöðum og koma sér áfram sjálfir. Það er hópur sem verður tollafgreiddur. Aðrir fari aftur til baka með vélunum. Það sé á ábyrgð flugfélaga hverju sinni að sjá um næstu skref fyrir farþega í svona tilfellum.