Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Um 40 flóttamenn væntanlegir síðla árs

24.05.2016 - 22:40
epa05102347 Syrian refugees wait at the north-eastern Jordan border with Syria, near Royashed Town, Jordan, 14 January 2016. According to the Jordanian news agency Petra, the Jordan Response Plan 2015' (JRP 2015) estimates the total number of Syrian
 Mynd: EPA
Um fjörutíu sýrlenskum flóttamönnum úr flóttamannabúðum í Líbanon verður boðið að koma til Íslands síðla árs. Félagsmálaráðherra segir móttöku flóttamanna úr búðunum hafa gengið vel.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að taka móti nýjum hópi sýrlensks flóttafólks síðar á þessu ári. Flóttamannanefnd lagði til að sveitarfélögin Reykjavík, Árborg og Hveragerði tækju við fólkinu, einkum vegna þess að þar eru virkar Rauðakrossdeildir, atvinnu- og húsnæðisástand er gott og öflug félagsþjónusta. Stærstur hluti flóttafólksins fer til Reykjavíkur. „Okkur skilst að þetta séu 40 manns, þar af 20 sem að koma til Reykjavíkur og við bara fögnum því og munum núna setjast niður með ráðuneytunum og skipuleggja þetta, en hópurinn mun koma til landsins á síðari hluta þessa árs,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.

Ekki er vitað hver samsetning hópsins verður, hvort þar verða mörg börn, eða fólk með sérþarfir. Gert er ráð fyrir um 200 milljónum króna til verkefnisins af fjárlögum ársins 2016. Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segir verkefnið mikilvægt. „Staðan hefur svo sannarlega ekki batnað í Sýrlandi að undanförnu og við vitum líka að það land sem hefur tekið við hvað flestum flóttamönnum, Líbanon, er algjörlega að kikna undan þunganum.“

Sveitarfélögin buðust sjálf til að taka þátt í þessu. „Um leið og áætlanir stjórnvalda voru settar fram í haust um að taka við fleira flóttafólki, þá skrifuðum við bréf og buðum okkur fram. Þannig að þetta eru jákvæð tíðindi að nú sé brugðist við því og vonandi verður frekara framhald á,“ segir Dagur. 

„Það skiptir gífurlega miklu máli, þessi jákvæðni sem kemur frá sveitarfélögunum, það er algjört lykilatriði til þess að vel takist til,“ segir Eygló.

Þegar hefur 48 flóttamönnum úr flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna í Líbanon verið boðið hæli hér það sem af er ári. „Þetta verkefni hefur gengið vel. Við höfum líka séð það í fjölmiðlum, í viðtölum, hversu vel þetta hefur gengið. Það að sjálfsögðu koma alltaf upp mál, þar sem að fólk er að aðlagast okkur og við erum að aðlagast nýjum einstaklingum í samfélaginu okkar, en hins vegar þegar viðhorf samfélaganna er jákvætt, það er tekið á móti fólki með opnum örmum, þá leysum við úr öllum málum sem koma upp,“ segir Eygló.