Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Um 3.000 lítrar af olíu láku út við Varmahlíð

11.09.2019 - 15:31
Innlent · mengunarslys · Norðurland · Olía · Olís · Slys · Varmahlíð
Mynd með færslu
 Mynd: Feykir.is - Rúv
Betur fór en á horfðist þegar rúmlega 3.000 lítrar af olíu runnu úr nýjum tanki Olís í Varmahlíð um liðna helgi. Óhappið varð þegar verið var að fylla olíutanka á staðnum. Héraðsfréttamiðillinn Feykir.is greindi fyrst frá málinu.

Bílstjóri fékk rangar upplýsingar

Í skriflegu svari frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra segir að bílstjóri hafi fengið rangar upplýsingar um það magn sem dæla átti á tiltekna stöð. Þá segir einnig að yfiráfyllingarvörn hafi bilað. Þá gerir eftirlitið athugasemdir við viðbrögð starfsfólks. 

„Heilbrigðiseftirlitið gerði strax athugasemd við að bílstjóri hefði ekki notið frekari aðstoðar frá starfsfólki Olís í Varmahlíð við að bregðast við óhappinu og að viðbrögðin væru vart í samræmi við öryggishandbók Olís,“ segir einnig í svari heilbrigðiseftirlitsins.  

Ekki talin ástæða til óska eftir aðstoð

Olían sem lak út rann yfir jarðveg og út á stétt en þegar heilbrigðisfulltrúi kom staðinn á hafði bílstjóri þurrkað upp það sem fór á malbik með ísogsefnum. Ekki var talin ástæða til þess að óska eftir aðstoð slökkviliðs vegna atviksins.