Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Um 100 manns verið vísað frá landi í ár

28.11.2019 - 08:28
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Um 100 manns hefur verið vísað af landi brott það sem af er árinu, að sögn Þorsteins Gunnarssonar forstjóra Útlendingastofnunar. Hann segir að það séu mun færri en oft áður, um 600 hafi verið vísað úr landi árið 2017.

Þorsteinn var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann segir að ástæðan fyrir þessum sveiflum sé aðallega breytt samsetning á þeim hópi sem komi hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd. „Það hefur fækkað verulega þeim sem koma frá þessum svokölluðu öruggu upprunaríkjum og við erum að sjá fjölgun í hópi annarra þjóðerna, svona hefðbundinna þjóðerna eins og Norðurlöndin hafa betur þekkt. Toppsætið okkar í ár eru Írakar, svo kemur Venesúela og svo Afganistan.“

Aðspurður hvers vegna þessi hópur hafi breyst segir hann ástandið í heiminum einfaldlega hafa breyst. „Í fyrsta lagi, held ég, sú hraða málsmeðferð sem var tekin upp, sem sagt að það var lögð mikil áhersla á að afgreiða hratt umsóknir þeirra sem komu frá öruggum upprunaríkjum en svo hafa aðstæður verið að breytast í heiminum. Því miður er hefur talan yfir fjölda fólks sem þarf að flýja heimili sitt á hverju einasta ári, hún hefur farið stöðugt hækkandi undanfarin ár. Mig minnir að 2010 hafi hún farið yfir þann fjölda sem að þurfti að flýja í seinni heimsstyrjöldinni og hefur í raun og veru verið á uppleið síðan. Þannig að aðstæður í heiminum eru með þeim hætti að fjöldi fólks neyðist til að yfirgefa heimili sín og flýja á hverju ári.“

Þverneitar því að blá ljós hafi verið fyrir utan Landspítalann 

Anna Kristín Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur gagnrýndi harðlega, í grein í Fréttablaðinu í vikunni, meðferð á konu á 36. viku meðgöngu sem var vísað úr landi ásamt tveggja ára syni og eiginmanni. Hún segist hafa áhyggjur af skertri heilbrigðisþjónustu þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi en það sem hefði komið sérstaklega illa við hana og annað heilbrigðisstarfsfólk væri að á meðan konan var í læknisskoðun hefði lögreglan verið fyrir utan með blikkandi ljós á lögreglubílnum. 

Þorsteinn segir að ábendingar frá heilbrigðisstarfsfólki séu teknar mjög alvarlega. „Varðandi framkvæmdir í svona málum er það þannig að lögreglumenn á vegum ríkislögreglustjóra, sem sjá um þessa flutninga, þeir ræða við þessa konu og hennar fjölskyldu í úrræði Útlendingastofnunar. Þegar hún fer svo upp á spítala með sjúkrabíl þá fara þeir lögreglumenn bara heim. Því að konan er innrituð á spítala og það er ekki lagt af stað með einstakling sem er innritaður á heilbrigðisstofnun. Þeir fá svo næst upplýsingar um kvöldið um að hún sé komin aftur í úrræði Útlendingastofnunar, þar með útskrifuð af spítala, fara og ræða við hana þar. Það kann vel að vera að það hafi verið blá ljós fyrir utan Landspítalann þetta kvöld, en þau voru ekki á vegum þeirra lögreglumanna sem komu að þessu máli. Þeir vinna almennt óeinkennisklæddir og á ómerktum bílum.“

Þorsteinn segir mikilvægt að halda staðreyndum málsins til haga. „Því hefur líka verið haldið fram að lögreglan, þarna um nóttina, hafi ákveðið að láta eitthvað eldra vottorð gilda og líta fram hjá því vottorði sem var gefið út af Landspítalanum. Það er rangt með farið. Eins og við sjáum þetta mál þá er það þannig að það kemur þarna vottorð og þeir fara yfir það, en það er ekkert í því vottorði sem gefur til kynna að það ætti ekki að leggja af stað. Það kemur fram að það sé stoðkerfisvandamál og þetta verði erfitt, það eru hlutir sem voru vitaðir fyrir fram en við höfum oft fengið til okkar vottorð frá heilbrigðisstarfsfólki þar sem einfaldlega er lagst gegn flutningi og það er þá sagt mjög skýrt í því vottorði að það sé ekki æskilegt að flytja viðkomandi á þessum tíma.“