Úlfur Úlfur er „grínið og myrkrið“

Mynd: Magnús Leifsson/Bróðir / Magnús Leifsson/Bróðir

Úlfur Úlfur er „grínið og myrkrið“

29.04.2017 - 12:50

Höfundar

Rappdúettinn Úlfur Úlfur vaknaði skyndilega úr nokkuð löngum dvala í vikunni og gaf óvænt út þrjú myndbönd og svo breiðskífuna Hefnið okkar.

Arnar Freyr Frostason og Helgi Sæmundur Guðmundsson segja að platan hafi verið tilbúin í þónokkurn tíma. „Við vildum sjokkera og koma fólki aðeins á óvart. Við höfum aldrei gert eitthvað svona áður, yfirleitt um leið og maður er búinn að gera eitthvað byrjar maður strax að auglýsa það,“ segja strákarnir í samtali við Lestina.

Nýja platan ber hinn forvitnilega titil Hefnið okkar, hvað skyldi hann fyrirstilla? „Þetta eru svo góð lokaorð,“ segja Arnar og Helgi sem neita þó að þetta sé þeirra síðasta plata. „Við unnum samt með þá hugmynd að þetta yrði, kannski ekki seinasta platan okkar, en það var einhver heimspeki á bak við þetta,“ segir Arnar og bætir því við að það séu engir gestir á plötunni sem sé mjög persónuleg. „Ég segi „hefnið okkar“ tvisvar á plötunni, og það varð einhver rauður þráður og húmor í gegnum hana alla.“

Myrkur og húmor

Þetta er þriðja plata Úlfs Úlfs og þeir unnu hana öðru vísi en þær sem á undan komu. „Hinar plöturnar voru svona samansafn af lögum sem voru gerð á kannski tveimur árum. En þarna, við vorum bara tveir lokaðir inni í litlu herbergi í fimm mánuði. Öll platan varð til á þeim tíma.“ Síðasta plata, Tvær Plánetur þótti til að bera mjög einlæga texta og Arnar segir að þeir hafi haldið áfram á þeirri braut. „Það er myrkur á henni en á sama tíma alveg gríðarlega mikill húmor. Það finnst mér vera Úlfur Úlfur, þessir andstæðu pólar, grínið og myrkrið.“

Strákarnir segjast vinna þannig að Helgi sendi takta á Arnar sem komi yfirleitt með fyrsta versið. „Arnar er mikill hugsuður og góður að setja tilfinningar sínar í orð,“ segir Helgi. „En á sama tíma erum við sammála um rosalega margt eftir mörg ár af djúpum samræðum, því við erum búnir að vera vinir svo lengi.“ Lögin þeirra séu því einnig eins og samræður á milli vinanna. Arnar segir takmarkið með tónlistinni sé að fá fólk til að líða „einhvern veginn“. „Hvort sem þú tengir eða ert ósammála. Við erum ekki að reyna að hafa vit fyrir neinum, segja hvernig á að hugsa eða hvað sé rétt eða rangt, bara að vekja upp tilfinningar.“

Fagna flórunni

Strákarnir segjast mjög meðvitaðir um íslensku rappsenuna og stöðu sína innan hennar. „Við erum í eldri kantinu og þetta er þriðja platan okkar, í þessari senu erum við gömlu kallarnir. En við fögnum flórunni og uppgangi senunnar og það er frábært hvað margir ungir strákar eru að koma fram.“ Næst á dagskrá hjá þeim er svo að kynna plötuna og spila á tónleikum. „Reyna að vera út um allt. Ég er rosalega spenntur fyrir því að spila, við höfum verið að breyta live settinu okkar, það eru komin fleiri hljóðfæri inn í þetta, erum að vinna í sjónrænu hliðinni líka,“ segir Arnar að lokum. 

Eiríkur Guðmundsson ræddi við Úlf Úlf í Lestinni.

Tengdar fréttir

Mynd með færslu
Tónlist

Úlfur Úlfur með þrjú myndbönd á einu bretti

Úlfur Úlfur á toppi Vinsældalista Rásar 2

Úlfur Úlfur - 100.000

Úlfur Úlfur - Tvær plánetur