Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tyrkneska Hollywood

Mynd: Moyan Brenn / Flickr

Tyrkneska Hollywood

29.09.2019 - 10:00

Höfundar

Tyrkneskir sjónvarpsþættir fara sigurför um heiminn og eru orðnir ein helsta útflutningsvara landsins. Vinsældir draumasmiðjunnar í Tyrklandi á heimsvísu nálgast nú ört Hollywood sem í áratugi hefur verið allsráðandi á markaðnum.

Tyrkneskar sjónvarpsseríur seljast sem aldrei fyrr og Bandaríkin eru eina þjóðin sem selur meira af sjónvarpsefni í heiminum öllum. Áhorfendur í Rússlandi, Kína, Kóreu og rómönsku Ameríku gleypa í sig tyrkneskar þáttaraðir. Chile er það land sem keypt hefur flestar þáttaraðir en Mexíkó og Argentína eru verðmætustu kaupendurnir. Þessir tyrknesku þættir eru um margt öðru vísi en menn eiga að venjast í hinum vestræna heimi. Þetta er yfirgripsmikill sagnaheimur, hálfgerð hetjuljóð og hver þáttur er oft tvær klukkustundir, jafnvel lengri. Persónugalleríið er yfirleitt fjölmennt og ekki óalgengt að um og yfir fimmtíu meginpersónur séu í hverri þáttaröð. Lítið er notast við hefðbundin myndver og sögufrægir staðir í Istanbul eru oftar en ekki notaðir sem náttúruleg leiktjöld. Umfjöllunarefnið er af öllum toga, allt frá fjöldanauðgunum til drottninga á tímum Tyrkjaveldis. Öskubuska er oft grunnstefið, hvort sem það er einstæð móðir eða ung leikkona við hungurmörk. Hetjan sést aldrei með byssu og fjölskyldan er ætíð þungamiðja sögunnar. Ástin og ástarsorgin eru aldrei langt undan.

plastbrúðhjón á köku
 Mynd: Daniel Nanescu - Splitshire

Gullöld tyrkneskra sjónvarpsþátta er rakin til ársins 2006 þegar Binbir Gece eða Þúsund og ein nótt hóf göngu sína. Áður höfðu tyrkneskir þættir gengið vel en Þúsund og ein nótt sló rækilega í gegn og þáttaröðin seld til áttatíu landa. Hinn bláeygði Halit Ergenç varð heimsfrægur og fór síðan með aðalhlutverkið í Magnificent Century eða Stórbrotinni öld sem sló öll met í vinsældum. Þar er fjallað um soldáninn sem fellur fyrir frillu sinni og giftist henni þvert á venjur og hefðir á sextándu öld. Allt er þetta byggt á sönnum atburðum en frillan ku hafa tilheyrt rétttrúnaðarkirkjunni og verið frá því svæði sem Úkraína er nú.

Kristin DAVIS, Cynthia NIXON, Sarah Jessica PARKER, Kim CATRALL
 Mynd: HBO
Beðmál í borginni

Þriðjungur þjóðarinnar sat límdur við skjáinn þegar Stórbrotna öldin fór í loftið. Erlenda pressan talaði um Sex and the City eða Beðmál í borginni á tímum tyrkjasoldáns eða Krúnuleikanna. Ekkert var til sparað við gerð þáttanna og sagnfræðihlutinn þykir stórbrotinn. Vinsældir þáttanna í miðausturlöndum voru slíkar að ferðamenn þyrptust á tökustaðina í Istanbul. Menningarmálaráðuneytið dreifði þáttunum jafnvel frítt til sumra landa í því augnamiði að styrkja landkynningu og efla ferðaþjónustu. Meira en fimm hundruð milljónir manna hafa fylgst með þáttunum um heim allan. Nú hafa ríflega hundrað og fimmtíu tyrkneskar þáttaraðir verið seldar til meira en eitt hundrað landa víðs vegar um heiminn.

Mynd með færslu
 Mynd: HBO
Game of Thrones

 

Tyrkjaveldi, sem einnig hefur verið nefnt Ottómanveldið eða Ósmanska ríkið, er algengt sögusvið þessara þátta. Tyrkjaveldi var miðpunktur samskipta Vestur- og Austurlanda í rúmlega sex hundruð ár. Á blómaskeiði sínu, undir lok sautjándu aldar, náði ríkið yfir hluta þriggja heimsálfa og innihélt Balkanskagann og suðurhluta Evrópu, ásamt stærstum hluta Mið-Austurlanda og Norður-Afríku. Náði frá Gíbraltarsundi í vestri til Kaspíahafs í austri og frá Austurríki í norðri til Sómalíu í suðri. Höfuðborg ríkisins var Konstantínópel eða Mikligarður við Bospórussund en nú heitir borgin Istanbul. Stórveldistími Tyrkja er iðulega í bakgrunni.

Hið hjartnæma, áhrifaríka og átakanlega

Austrið sækir stöðugt á draumaverksmiðjuna í Hollywood, hvort sem það eru sjónvarpsþættir frá Tyrklandi, Bollywood-kvikmyndir frá Indlandi eða svokallað K-pop frá Kóreu. Viðmælendur Guardian í Tyrklandi segja ástæðuna einfalda, Hollywood snúist um afþreyingu en hreyfi síður við fólki í seinni tíð. Það vanti þetta hjartnæma, áhrifaríka og átakanlega, samúð, innlifun og hluttekningu. Hollywood snerti ekki við tilfinningum fólks með sama hætti og áður. Hollywood snúist um einmanaleika og tímasóun, fjöllyndi, neysluhyggju og andlega fátækt. Allt snúist um ofbeldi, eiturlyf og endalaust kynlíf. Ástin er vissulega þungamiðjan í tyrknesku þáttunum en í þekktri þáttaröð er fyrsti koss söguhetjunnar í þætti númer 58. Rómantíkin er alls ráðandi.

Nauðungarhjónabönd og staða konunnar

Einn vinsælasti þátturinn fjallar um ungu stúlkuna Fatmagul sem er nauðgað af hópi manna og þarf að berjast fyrir réttlæti. Þættirnir fjalla um stöðu konunnar í samfélaginu, nauðungarhjónabönd, stöðu konunnar innan fjölskyldunnar og yfirburðavald hinna auðugu. Stúlkan sigrast á endanum á öllum hindrunum með þrautseigju og baráttu. Hún brýst til mennta og réttlætið sigrar að lokum. Hún öðlast réttlæti fyrir dómstólum, hinir seku hljóta réttláta refsingu og að lokum fær hún að upplifa hreina og sanna ást. Þáttaröðin nýtur gríðarlegra vinsælda í löndum eins og Argentínu og Spáni.

Draumar rætast í draumasmiðjunni 

Umfjöllunarefni tyrknesku þáttanna er af öllum toga en þeir eiga það sammerkt að uppfylla langanir og þrár á sama tíma og fjallað er um mikilsverð málefni sem snerta fólk beint í hjartastað. Hetjurnar eru ljúfmenni eins og þeir birtast í draumum kvenna og stúlkurnar eru öskubuskur sem sigrast á erfiðleikunum og fá réttláta umbun að lokun. Draumarnir rætast í tyrknesku draumaverksmiðjunni.