Týndist á Akureyri en fannst á Siglufirði

13.08.2019 - 17:04
Mynd: Wikipedia / Wikipedia
Kötturinn Kanilsykur hvarf frá heimili sínu á Akureyri um miðjan júlí. Eftir að eigandi kisa lýsti eftir honum á samfélagsmiðlum fannst hann, rúmum tveimur vikum síðar, á Siglufirði.

Mikil sorg á heimilinu

Linda Sif Eydal, eigandi Kanilsykurs segir mikla sorg hafa ríkt á heimilinu eftir að kisi lét sig hverfa. Hann hafði einungis búið í bænum í nokkra daga þegar hann lagði upp í þessa ævintýraför. 

Var í ótrúlega góðu ástandi

Eftir að upp komst um strokið upphófst viðamikil leit sem skilaði loks árangri 18 dögum síðar. Kanilsykur hafði þá gert sig heimakominn í garði á Siglufirði, tæpa 80 kílómetra frá heimahögum. Kanilsykur var ótrúlega vel á sig kominn þegar hann fannst og ekki að sjá að hann hefði verið á vergangi í allan þennan tíma. 

„Við vorum búin að auglýsa á Facebook og í alls konar grúppum. Týnd dýr á Akureyri og hverfisgrúppum og alls konar þannig. Þannig að hann fannst í gegnum samfélagsmiðla.“

Ýmsar kenningar um hvarfið

Linda hefur uppi ýmsar kenningar um ferðalagið. Sannleikurinn verður hins vegar að öllum líkindum geymdur hjá Kanilsykri áfram.

„Annaðhvort hefur hann húkkað sér far með einhverjum bíl, farið upp í pallbíl, eða þá að einhver hefur bara hreinlega tekið hann. Maður veit það ekki. Það veit það enginn nema hann, væntanlega.“

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi