Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tvöföld yfirvinna vegna þriðja orkupakkans

09.09.2019 - 21:30
Helgi Bernódusson skrifstofustjóri Alþingis og Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis við þingsetningu 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Starfsfólk Alþingis vann tvöfalt meiri yfirvinnu vegna þriðja orkupakkans miðað við sama tímabil síðustu ár. Starfsfólkið vann yfir 3.000 yfirvinnutíma meðan á umræðunni stóð. Ekki var hægt að komast hjá hvíldartímabrotum, segir skrifstofa Alþingis.

Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um þriðja orkupakkann var samþykkt á Alþingi á mánudag. 46 þingmenn sögðu já, 13 sögðu nei. Önnur umræða um málið var sú lengsta í sögu Alþingis. 

Helgi Bernódusson, fyrrverandi skrifstofustjóri Alþingis, sagði málþófið í kringum þriðja orkupakkann hafa verið þrúgandi fyrir starfsfólk þingsins. Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum um yfirvinnutíma starfsfólks á skrifstofu Alþingis frá 14. maí til 20. júní, frá því tillagan var lögð fram til annarrar umræðu og fram að þinglokum. 

Yfir 3.000 yfirvinnutímar

Samkvæmt upplýsingum frá Alþingi voru yfirvinnutímar þeirra sem störfuðu næst þingsalnum samtals 3.025 á þessu rúmlega mánaðar tímabili.
Á sama tímabili í fyrra, voru þær 1.430. 2017 voru yfirvinnutímarnir 1.520 og árið þar áður 1.350.

Í svari Alþingis við fyrirspurn fréttastofu segir að á vorin, þegar þinglok nálgast, sé alltaf álag en nú hafi það verið meira en venjulega. Starfsfólk í öryggisvörslu og þjónustu við þingsal gengur vaktir en aðrir eru í dagvinnu. Á þessum álagstíma hafi hins vegar verið reynt eftir bestu getu að dreifa álagi, hliðra vinnutíma til og fá viðbótaraðstoð frá öðrum starfseiningum innan skrifstofunnar. 

Hvíldartímabrot óhjákvæmileg

Þá segir einnig að ekki hafi verið hægt að komast hjá hvíldartímabrotum samkvæmt vinnulöggjöf um 11 stunda hvíldartíma, en reynt hafi verið að halda þeim í lágmarki. Vinnueftirlitið hefur ekki haft samband við skrifstofu Alþingis vegna þessa.