Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tvö brot á varnarlínum til rannsóknar hjá lögreglu

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Matvælastofnun hefur óskað eftir að lögreglan rannsaki meintan flutning fjögurra lambhrúta frá Vestfjörðum til Norðurlands eystra. Ekki er heimilt að flytja sauðfé yfir varnarlínur nema í sérstökum undantekningartilfellum. Til þess þarf að fá leyfi Matvælastofnunar. Sambærilegt mál er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi.

Meintur flutningur uppgötvaðist við eftirlit og hefur flutningsbann verið sett á hrútana. Árið 2016 sótti viðtakandi þeirra um leyfi til Matvælastofnunar um kaup á fimm lambhrútum úr Vestfjarðahólfi vestra. Þeirri umsókn var hafnað. 

Fyrir réttri viku óskaði Matvælastofnun eftir lögreglurannsókn á meintum flutningi á sauðfé yfir Hvítá í uppsveitum Árnessýslu. Grunur leikur á að bændur úr Hrunamannahreppi hafi sótt nokkra tugi lamba í sinni eigu sem komu í réttir í Biskupstungum í september og flutt yfir varnarlínu. Það mál er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi.

Varnir gegn útbreiðslu búfjársjúkdóma

Landinu er skipt upp í 25 varnarsvæði með svokölluðum varnarlínum sem ýmist eru girðingar eða náttúrulegar hindranir, svo sem ár, fjöll eða jöklar. Upphaflegur tilgangur þessa fyrirkomulags var að varna útbreiðslu sauðfjársjúkdóma sem borist höfðu með innflutningi á karakúlfé frá Þýskalandi árið 1933, garnaveiki og mæðiveiki (votamæði og þurramæði).

Varnarhólfin voru liður í aðgerðum til að útrýma sjúkdómunum. Fé var fargað á sýktum svæðum og nýtt tekið í staðinn frá ósýktum svæðum. Votamæði var útrýmt árið 1952 en þurramæði árið 1965. Ekki tókst jafn vel til með garnaveiki og er hún enn til staðar. Eftir að bólusetning var tekin upp hefur þó dregið mikið úr garnaveiki og henni verið útrýmt á nokkrum svæðum.

Varnarlínurnar gegna einnig mikilvægu hlutverki í aðgerðum sem lúta að upprætingu riðuveiki. Sömuleiðis geta þær skipt miklu máli við að stemma stigu við útbreiðslu nýrra smitsjúkdóma. Til að auðvelda eftirlit eru mismunandi litir hafðir á eyrnamerkjum í sauðfé eftir því hvaða varnarhólfi það tilheyrir.  

Leggst á taugakerfi sauðfjár

Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að riðuveiki eða riðu í sauðfé er smitandi sjúkdómur í heila og mænu, kvalafullur og langvinnur. Algengast er að kindur veikist eins og hálfs til fjögurra ára en þó eru dæmi um riðu hér á landi í sjö mánaða gömlu lambi og fjórtán vetra á. Riða leggst misþungt á ólíkar arfgerðir sauðfjár. Skemmdir sem verða í heila leiða til einkenna frá taugakerfi svo sem ótta, öryggisleysis og fælni.

Oft sést og finnst hárfínn titringur eða skjálfti og tannagnístur heyrist nær alltaf í riðuveikum kindum. Fyrir kemur að riðuveikar kindur sjái illa, gangi á og beri framfætur hátt. Oft ber á slettingi í gangi, lömun eða þróttleysi. Kindurnar geta snarast um koll ef tekið er í horn. Oftast ber á vanþrifum þegar líður á sjúkdóminn. Þrálátur kláði, sem er algengt einkenni erlendis, sást ekki eða varla í riðukindum á Íslandi áður fyrr, en hefur orðið ríkjandi sem fyrsta einkenni á seinni árum.

Sumar riðuveikar kindur klóra sér í sífellu, oft með hornenda, eða nudda sér við, þar til sár koma á höfuð og á tortu við afturenda og víðar um skrokkinn, til dæmis á síðum. Þær fleygja sér niður og naga fætur frá legg og upp í hnésbót og hækilbót og velta sér stundum eins og hross eða draga sig áfram á kviðnum líkt og hundar eftir sund. Stundum lagar blóð úr nuddsárunum. Stundum sést ekkert annað í fyrstu en vanþrif. Hvorki er kláði til staðar né heldur taugaveiklun eða lömun, en oftast svara riðukindur þó nuddi eða klóri í malir og bak eða haus með velþóknun, líka þær sem sýna ekki merki um kláða að fyrra bragði. Þær halla sér á móti þeim sem klórar, kjamsa eða sleikja út um.