Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tvíburarnir búnir að spila fyrir Ísland

Mynd: RÚV / RÚV

Tvíburarnir búnir að spila fyrir Ísland

26.07.2019 - 19:00
Landsliðsmarkvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir tilkynnti það fyrr í dag að hún gengi með tvíbura og myndi þess vegna ekki spila fótbolta á næstunni. Hún var orðin ólétt þegar Ísland mætti Finnum í júní svo tvíburarnir hafa nú þegar spilað fyrir Íslands hönd.

Guðbjörg verður því ekki með íslenska kvennalandsliðinu í undankeppni EM sem hefst eftir rétt rúman mánuð. Þar er liðið í riðli með Lettlandi, Slóvakíu, Ungverjalandi og bronsliðinu frá HM í Frakklandi, Svíþjóð.

Fyrir nokkrum árum var Guðbjörgu sagt að hún gæti líklega aldrei orðið ófrísk en hún og kærasta hennar, sem leikur einnig með sænska úrvalsdeildarliðinu Djurgården, hafa verið að reyna að eignast barn undanfarin þrjú ár með hjálp glasafrjóvgunar.

„Þetta er eiginlega ótrúlegur rússíbani ef ég á að segja alveg eins og er. Mér var sagt sem sagt fyrir svolítið löngu að ég gæti hugsanlega aldrei átt börn og hefði aldrei getað átt börn á eðlilegan hátt þannig að sjálfsögðu er þetta alveg svart og hvítt,“ segir Guðbjörg.  

Guðbjörg sem er 34 ára hefur verið aðalmarkvörður landsliðsins um árabil, á að baki 64 landsleiki og er næstleikjahæsti markvörður kvennalandsliðsins á eftir Þóru Helgadóttur. 

Guðbjörg segir að íslenski hópurinn hafi tekið fréttunum afar vel en þjálfara Djurgården hafi brugðið örlítið við fregnirnar.

„Margar þar eru svo góðar vinkonur mínar að mig langaði að segja þeim og ég sagði nokkrum frá fyrir dálitlu síðan. Svo hringdi ég í Jón Þór fyrir tveimur dögum. Ég vildi ekki að hann myndi lesa þetta einhvers staðar og ég hringdi í Óla markmannsþjálfara sem ég er búin að þekkja ótrúlega lengi. Það hafa allir tekið þessu mjög vel. Þeir tóku þessu eiginlega betur en Djurgården-þjálfarinn fyrst sem var í smá svona þjálfarasjokki en síðan kom mannlega hliðin fram og hann óskaði mér til hamingju,“ segir Guðbjörg hlæjandi. 

Íslenska kvennalandsliðið mætti Finnlandi í tveimur vináttuleikjum í apríl og það var þá sem Guðbjörg komst að því að hún væri ólétt. „Ég var alveg á nálum, ég vissi ekki hvort ég væri þá að fara að skemma eitthvað með því að spila og ég man að á endanum bankaði ég á dyrnar hjá nýjum lækni, það var akkúrat nýr læknir í þessari ferð. Ég var varla búin að segja „Hæ, ég heiti Gugga“, lokaði dyrunum og fór næstum því að grenja og sagði henni að ég væri ófrísk og vissi ekkert hvað ég ætti að gera og hvort ég gæti spilað. Og hún róaði mig. Ég gat spilað og það gekk vel. Þeim getur ekki dottið í hug að fara að velja Svíþjóð sem þjóðerni núna þegar þau eru búin að spila fyrir Ísland.“