Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tvíburar unnu í 400 metra hlaupi

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Tvíburar unnu í 400 metra hlaupi

15.07.2019 - 08:30
Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fór fram á Laugardalsvelli um helgina. Athygli vakti að tvíburasystkyni stóðu uppi sem sigurvegarar í 400 metra hlaupi karla og kvenna.

400 metra hlaup karla fór fram um miðjan dag á laugardag. Þar hljóp hinn 19 ára gamli Hinrik Snær Steinsson, úr FH, á 48,33 sekúndum og var rúmlega sekúndu á undan næsta manni í mark. Þetta var hans besti tími í greininni en næstur á eftir honum var liðsfélagi hans úr FH, hinn 34 ára gamli Trausti Stefánsson á 49,58 sekúndum. Þriðji var Bjarni Anton Theódórsson úr Fjölni á 50,82 sekúndum.

Eftir að hlaupið var afstaðið tók við 400 metra hlaup kvenna. Þar kom fyrst í mark Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH á tímanum 56,82. Hún var rúmri sekúndu á undan Ingibjörgu Sigurðardóttur úr ÍR sem hljóp á 58,18 en þriðja var Karla Rut Róbertsdóttir Kluvers úr Breiðabliki á 58,31 sekúndum.

Þórdís Eva er tvíburasystir Hinriks Snæs og unnu þau systkinin því Íslandsmeistaratitil í sömu greininni með um tíu mínútna millibili á laugardaginn var.

Þau eru ekki einu systkinin sem unnu til verðlauna um helgina en Aníta Hinriksdóttir varði Íslandsmeistaratitil sinn í 800 metra hlaupi. Systir hennar Iðunn Björg Arnaldsdóttir varð þriðja í sama hlaupi. Þá vakti athygli að kærustuparið, Ari Bragi Kárason og Dóróthea Jóhannesdóttir, FH, unnu bæði Íslandsmeistaratitil í 100 metra hlaupi um helgina.

Tengdar fréttir

Frjálsar

Ólympíufarar unnu til verðlauna í Laugardal

Frjálsar

Kolbeinn vann en tímatakan klikkaði

Frjálsar

ÍR fagnaði sigri þriðja árið í röð

Frjálsar

Kærustupar vann í 100 metra hlaupi