Heimavist er nýr þáttur fyrir grunnskólabörn og er þátturinn beint úr smiðju KrakkaRÚV og UngRÚV. Þátturinn verður á dagskrá RÚV alla virka morgna frá 9-11 og er því frábær byrjun á deginum fyrir alla krakka. Í þættinum verður kafað ofan í vísindin, fræðst um Ísland og nánasta umhverfi. Einnig verður rýnt í menningu og listir og þá verður hugað að hreysti og góðri líðan. Umsjónarfólk þáttarins eru þau Sigyn Blöndal, Sævar Helgi Bragason og Hafsteinn Vilhelmsson. Sigyn er spennt fyrir verkefninu og segir þáttinn vera bæði skemmtilegan og fræðandi. „Þetta verður heimilisleg stemmning, vonandi svolítið skemmtilegt og fræðandi í senn. Við viljum vera í góðu sambandi við krakka og unglinga sem eru heima og tökum fagnandi á móti myndböndum og áskorunum. Við kíkjum á innsend myndbönd á föstudögum sem verða miklir stemmningsdagar hjá okkur, til dæmis á föstudaginn næsta er vísinda/slím-þema.“ Fyrsti þáttur af Heimavist er á dagskrá RÚV mánudaginn 30. mars.
Núllstilling er þáttur úr smiðju RÚV núll og hann verður í beinni útsendingu frá Eldborg í Hörpu alla virka daga frá 14-16 á meðan samkomubannið er í gildi. Í þættinum er fjallað um allt sem viðkemur ungu fólki og góðir gestir mæta í settið. Þátturinn er ætlaður öllum á framhaldsskólaaldri. Umsjónarfólk Núllstillingar eru þau Snærós Sindradóttir, Atli Már Steinarsson, Helga Margrét Höskuldsdóttir og Jafet Máni Magnúsarson. Þátturinn hóf göngu sína í vikunni og viðtal við Víði Reynisson í þættinum vakti verðskuldaða athygli.