Tveir lyfsalar grunaðir um óeðlilega afgreiðslu lyfja

09.01.2020 - 18:01
Úr umfjöllun Kveiks um lyfjaskil
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson
Grunur er um að tveir lyfsalar hafi gerst sekir um alvarlegt misferli við afgreiðslu lyfja. Lyfjastofnun segir að grunur leiki á að umtalsvert magn af lyfseðilsskyldum lyfjum hafi verið afgreitt án lyfseðla.

Fréttavefur Morgunblaðsins greindi frá því í vikunni að lyfsali í Lyfju í Reykjanesbæ og Lyfsalinn í Glæsibæ í Reykjavík væru grunaðir um misferli við meðferð og afgreiðslu lyfja. Lögreglan í Reykjanesbæ rannsakar annað málið og Lyfjastofnun hitt. Kolbeinn Guðmundsson, yfirlæknir Lyfjastofnunar og staðgengill forstjóra, segir í samtali við fréttastofu að ekki sé útilokað að málið í Glæsibæ verði kært til lögreglu. 

Grunur leikur á að lyfsalinn þar hafi afgreitt talsvert magn lyfseðlisskyldra lyfja með óeðlilegum og ólöglegum hætti. Ekki fást upplýsingar um hvaða lyf hann er grunaður um að hafa selt. Lyfjafræðingum er hvorki heimilt að skrifa lyfseðla né afgreiða lyfseðilsskyld lyf án lyfseðla. Kolbeinn vill ekki tjá sig um það hvort einhver læknir sé hluti af rannsókn Lyfjastofnunar. 

Bæði málin komu upp rétt fyrir jól, og Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að þau tengist.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að rannsókn á lyfsalanum í Reykjanesbæ sé skammt á veg komin. Þar spili inn í persónulegar aðstæður þeirra sem rannsóknin varðar, þær séu mjög erfiðar. Hann á ekki von á að rannsókn ljúki á næstunni.

Lyfsölunum hefur báðum verið vikið frá störfum og hafa aðrir leyfishafar tekið við rekstri apótekanna.
 

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV