Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tveir í einangrun á Akureyri vegna gruns um COVID-19

11.03.2020 - 20:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Tveir sjúklingar á Sjúkrahúsinu á Akureyri voru settir í einangrun í dag eftir að grunur vaknaði um Covid-19 smit. Sýni úr þeim voru send til greiningar í Reykjavík og var niðurstaðan neikvæð. Samkvæmt upplýsingum frá Sigurði Einari Sigurðssyni, framkvæmdastjóra lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, losnar annar sjúklinganna úr einangrun seinna í kvöld. Hinn sjúklingurinn verður í einangrun þangað til á morgun. Tekið verður annað sýni úr honum til öryggis.

Saga þeirra óljós

„Hjá okkur eru tveir sjúklingar inniliggjandi á sjúkrahúsinu sem eru með öndunarfæraeinkenni og sagan þeirra er það óljós að við höfum ekki geta útilokað að um Covid-19 smit sé að ræða,“ segir Sigurður. 

Sjúklingarnir ekki tengdir

Sjúklingarnir eru ekki tengdir þrátt fyrir að grunur um smit hafi vaknað nánast á sama tíma.

„Annar kemur með sjúkrabíl og við höfðum verið vöruð við áður þar sem að hann hafði gefið upp þannig sögu að þótt það væri ekki eftir skimunareinkennum sem að landlæknir benti okkur á þá var sagan með því móti að við vildum hafa vaðið fyrir neðan okkar. Hinn gaf sögu eftir að hann hafði verið innlagður.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

odinnso's picture
Óðinn Svan Óðinsson