
Tveir hópar fatlaðs fólks hafa ekki fengið bætur
Bryndís telur að það sé tiltölulega rétt mat á stærð hópsins sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, þ.e. 80-90 fatlaðir einstaklingar.
„Okkur finnst mikilvægt að það sé horft á sérstöðu þessa hóps,“ segir Bryndís. Þroskahjálp haldi því ekki fram að mannvonska hafi valdið því að fötluð börn bjuggu við slæmar aðstæður. Á þeim stofnunum á vegum ríkisins sem fötluð börn voru vistuð á árum áður hafi yfirleitt verið fjárskortur, mannekla og eftirliti stjórnvalda hafi verið ábótavant. Börnin fóru á mis við fjölskyldur sínar og menntun. Þau hafi því búið við vanrækslu.
Bryndís tekur fram að í úttekt á Kópavogshælinu, þar sem fötluð börn voru vistuð, hafi verið bent á að einnig þurfi að skoða stöðu þeirra sem voru vistaðir á stofnunum eftir að þeir voru komnir af barnsaldri. Þegar máli þeirra, sem vistaðir voru á stofnunum sem börn, verði siglt í höfn sé næsta verkefni að krefjast réttlætis fyrir tvo aðra hópa: Þeirra fatlaðra sem voru vistaðir fullorðnir á stofnunum og þeirra fatlaðra sem sættu illri meðferð inni á einkaheimilum sem þeir voru vistaðir á.
Brýnt að fá að segja sögu sína
Í greinargerð með frumvarpinu er nefnt að Margrét Esther Erludóttir, sem fyrir ári sagði í fréttaskýringaþættinum Kveik frá illri meðferð sem hún var beitt á fósturheimilum, hafi sent inn umsögn og krafist þess að fá uppreist æru fyrir sig og önnur börn. Þá kemur fram að Barnaverndarstofa telji brýnt að þessi hópur fái að segja sögu sína. Í greinargerðinni segir að ef eigi að skoða mál fósturbarna þá verði það að vera sérstakt mál. „Enn sem komið er hefur ekki verið tekin ákvörðun um að hefja slíkt mál,“ segir í greinargerðinni.
Bryndís veit ekki hversu margtt fatlað fólk fyllir þessa tvo hópa sem út af standa. Þroskahjálp hefur óskað eftir því að réttindavakt félagsmálaráðuneytisins kanni hversu margir vilja fá að minnsta kosti afsökunarbeiðni frá stjórnvöldum.
Vilja viðurkenningu samfélagsins
Bryndís segir að það sé ekki endilega efst huga fólksins að fá fjármuni frá ríkinu. „Ég skynja það sterkt að fólk vill fá samfélagslega viðurkenningu á því að það hafi verið beitt órétti.“
Ólafur Hafsteinn Einarsson, var vistaður sem fullorðinn fatlaður maður í fangelsinu Bitru. Sú reynsla er honum þungbær og hann sagði frá henni í fréttum RÚV fyrir tveimur árum. Hann fær ekki sanngirnisbætur samkvæmt nýja frumvarpinu.
Bryndís segir að þau séu nokkur sem hringi reglulega í hana, sem ýmist hafi verið vistuð fullorðin á stofnunum eða á einkaheimilum sem börn. Þeim sé efst í huga að þau vilji viðurkenningu yfirvalda á því að þau verið beitt órétti.