Tveir bandarískir hermenn drepnir í Afganistan

09.02.2020 - 06:23
epa06772997 Afghan Police secures the road leading to the Interior Ministry building after an attack by suspected militants in Kabul, Afghanistan, 30 May 2018. At least one policeman was killed and another wounded when suspected militants attacked the
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tveir bandarískir hermenn voru felldir og níu hermenn særðust í skotárás í Nangarharhéraði í austanverðu Afganistan í gær. Sex hinna særðu voru bandarískir hermenn en þrír voru afganskir. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Bandaríkjaher.

„Upplýsingar sem við höfum undir höndum benda til þess að einstaklingur í afgönskum einkennisbúningi hafi skotið á sameiginlega sveit Bandaríkjamanna og Afgana með vélbyssu," segir í tilkynningunni, sem talsmaður bandaríska heraflans í Afganistan las upp á fréttamannafundi.

Héraðsstjóri Nangarhar, Shah Mahmood Meyakil, segir ekki ljóst hvort skothríðin hafi verið vísvitandi árás „flugumanns" í hópnum eða slys, og að ekki hefði verið um átök milli óvinasveita að ræða. Málið sé í rannsókn. Talsmaður Bandaríkjahers tók í sama streng og lagði áherslu á að tilefni árásarinnar eða hvatirnar að baki hennar liggi ekki fyrir.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi