Tveir áfrýjuðu strax dómi í stóra amfetamínmálinu

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Þrír menn voru dæmdir í sex og sjö ára fangelsi í dag fyrir að framleiða rúmlega átta og hálft kíló af amfetamíni. Tveir þeirra voru þá einnig dæmdir fyrir umfangsmikla kannabisræktun. Verjandi eins þeirra segir bæði sakfellinguna og þyngd dómsins hafa komið á óvart.

Þremenningarnir, Alvar Óskarsson, Margeir Pétur Jóhannsson og Einar Einarsson voru ákærðir fyrir kannabisframleiðslu á bæ nærri Hellu og amfetamínframleiðslu í sumarhúsi í Borgarfirði. Auk þess var Alvar ákærður fyrir að hafa amfetamín í vörslu sinni og Margeir fyrir vopnalagabrot, en hnúajárn fannst við húsleit heima hjá honum.

Þeim var gefið að sök að hafa haft 206 kannabisplöntur í vörslu sinni og 111 grömm af kannabisstönglum og hafa staðið að ræktun um nokkurt skeið. Þá var þeim gefið að sök að hafa staðið að framleiðslu liðlega átta og hálfs kílós af amfetamíni í sumarhúsinu. Einar var sýknaður af kannabisframleiðslunni, en Alvar og Margeir sakfelldir.

Neituðu allir að hafa framleitt amfetamín

Ákærðu neituðu allir að hafa framleitt amfetamín. Vitni gaf sig fram við lögreglu og sagðist hafa framleitt og átt amfetamínið, en í dómnum er breytilegur framburður mannsins sagður ótrúverðugur og til þess fallinn að afvegaleiða.

Alvar var dæmdur í sjö ára fangelsi og Margeir og Einar í sex ára fangelsi. Bæði Alvar og Einar hafa áður sætt refsingu, meðal annars í Pólstjörnumálinu svokallaða, þar sem reynt var að smygla tugum kílóa af fíkniefnum sjóleiðis til Fáskrúðsfjarðar. 

Tveir mannanna ákærðu strax

Einar tók sér frest til að taka ákvörðun um áfrýjun, en lögmenn Alvars og Margeirs áfrýjuðu strax. Steinbergur Finnbogason, verjandi Margeirs segir dóminn mikil vonbrigði. Honum hefur þegar verið áfrýjað, „en að öðru leyti þurfum við að kynna okkur forsendur dómsins og aðeins að átta okkur á því hvernig þessi niðurstaða fékkst,“ segir hann.

Aðspurður segir hann dóminn hafa komið sér og umbjóðenda sínum verulega á óvart. „Bæði fyrir hvað varðar sakfellingu fyrir þennan amfetamínþátt og ekki síst fyrir þyngd dómsins. En ég þarf að kynna mér betur forsendurnar til að geta tjáð mig eitthvað frekar um það.“

Sjá einnig: Amfetamínframleiðendur í sex til sjö ára fangelsi

Fundu 206 kannabisplöntur í útihúsi í Þykkvabæ

Lögregla kom fyrir hlustunar- og eftirfararbúnaði í bíl sem mennirnir höfðu til afnota eftir að henni barst ábending um að „Alvar væri stórtækur í framleiðslu og sölu og dreifingu fíkniefna,“ segir í dómnum. Af upptökunum heyrði lögregla mennina tvo tala um kannabisræktunina, svo sem hvenær uppskera yrði tilbúin og hvernig efninu yrði komið í verð.

Rannsóknin leiddi lögreglu svo að útihúsi í Þykkvabæ. Þegar lögreglumenn fóru inn í húsið, til að koma þar fyrir búnaði til mynd- og hljóðupptöku, reyndist þar vera umfangsmikil kannabisræktun sem talið var að væri á lokastigi. Rúmlega tvö hundruð plöntur fundust í húsinu.

Amfetamínframleiðsla í bústað í eigu föðurins

Amfetamínframleiðslan uppgötvaðist svo í kjölfarið. Rannsókn á kannabisræktuninni leiddi lögreglu að sumarhúsi í Borgarfirði, sem er í eigu föður eins sakborninganna og í miðju sumarbústaðahverfi. Við húsleit fundust tæp 8,6 kíló af amfetamíni auk ýmiss búnaðar, tækja og tóla.

Um tvö hundruð kannabisplöntur og 8.600 grömm af amfetamíni voru gerð upptæk vegna málsins, auk muna sem notaðir voru við brotin, svo sem gaskúta, gróðurhúsalampa, vifta og gróðurtölva. Einnig var Toyota Corolla-bifreið, sem notuð var til að komast að ræktuninni, gerð upptæk ásamt hnúajárni og fjármunum. 

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn segir að þeir ákærðu hafi greinilega lagt mikið á sig til að leyna framleiðslunni. Rannsóknin hafi reynt talsvert á lögreglu, bæði faglega og tæknilega. Þetta sé þróun sem lögreglan þurfi að einbeita sér að að geta ráðið við.

Grunur um peningaþvætti

Sex voru ákærðir í tengslum við málið. Fyrir utan mennina þrjá sem dæmdir voru í dag voru tveir karlar og ein kona ákærð vegna kannabisræktunarinnar. Þeirra á meðal voru ábúendurnir á bænum. Þau þrjú hlutu átta og tíu mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm í október, en málin tvö voru skilin að. 

Áður hefur verið greint frá því að lögregla rannsaki meint peningaþvætti í tengslum við fíkniefnaframleiðsluna. Grunur sé um að fé hafi verið þvættað í gegnum atvinnurekstur. Karl Steinar yfirlögregluþjónn segir í samtali við fréttastofu að rannsóknin sé nú á lokametrunum. Yfirheyrslur hafi staðið yfir síðan í haust. 

 

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi