Tveimur skipt út í siðanefnd Alþingis

28.01.2019 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Tvö af þremur sem skipuð voru í siðanefnd Alþingis munu ekki fjalla um Klausturmálið. Formaðurinn, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, verður áfram í nefndinni en ekki þau Hafsteinn Þór Hauksson dósent við lagadeild Háskóla Íslands og Salvör Nordal umboðsmaður barna, áður forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. 

Margrét Vala Kristjánsdóttir, varamaður Hafsteins Þórs, tekur sæti hans en hann hættir í nefndinni og er sú ákvörðun hans algjörlega óháð Klausturmálinu. Salvör óskaði eftir því við Alþingi að fjalla ekki um Klausturmálið vegna anna í embætti umboðsmanns barna. Komin er tillaga fyrir staðgengil Salvarar, samkvæmt upplýsingum frá Alþingi, og er gert ráð fyrir að forsætisnefnd afgreiði hana á fundi sínum á morgun. Tveir nýir varaforsetar Alþingis koma Klausturmálinu til siðanefndar. 
 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV