
Tveimur kílóum hent af nýtilegum mat í mánuði
Kristín Línda kynnti þessar niðurstöður á haustráðstefnu Fenúr og Umhverfisstofnunar í morgun. Fenúr er fagráð um endurnýtingu og úrgang, sem í eiga sæti fulltrúar ríkis, sveitarfélaga og einkafyrirtækja á þessu sviði. Heiti ráðstefnunnar Saman gegn sóun er einnig heiti stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra til næstu tólf ára, sem kynnt var fyrr á árinu. Samkvæmt henni verður einblínt á matvæli í ár og næsta ár.
„Í fyrsta skipti höfum við glóðvolgar fréttir um matarsóun Íslendinga. Við fengum íslenskar fjölskyldur til þess að taka þátt í að mæla hjá sér hversu miklum mat þau eru að henda á hverjum einasta degi. Og þá líka hversu mikið af mat er í raun og veru ætur eða sem sagt þú getur nýtt. Hvað mikið er óætt, það sem þú getur raunverulega ekki nýtt og líka vökva. Við teljum að á ári að þá sé varðandi ætan mat, eða sem sagt mat sem hægt er að borða, um 23 kíló sem við hendum og í kringum 40 kíló sem að er ekki ætur. Og síðan jafnframt er þetta um 199 kíló af vökva sem við hellum niður. Og við verðum að hafa í huga að þetta er auðvitað eitthvað sem að við erum búin að hafa fyrir að vinna fyrir. Við erum búin að hafa fyrir að kaupa þetta og setja þetta inn í ísskáp og hugsanlega elda úr þessu og síðan er þessu hent. En samtals eru þetta um 282 kíló á ári per Íslending af matarleifum sem við erum að henda. Og ef við horfum nú á Íslendinga alla þá erum við komum í 93 eða næstum því 94 þúsund tonn á ári“, segir segir Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar. Til viðbótar við upptalningu hennar eru 22 kíló af matarolíu og fitu.
Mörgum vex í augum að taka upp nýja siði. Kristín Linda segir að tíma taki að venja sig á nýja hegðun:
„Fyrst og fremst að byrja á því að taka þetta inn í smáum skrefum; að byrja að ná að flokka aðeins betur, nýta matinn aðeins betur. Reyna síðan að taka út slæmu hegðunina sem er augljós á þínu heimili að veldur sóun. Þú ert að kaupa of mikið af ákveðinni matartegund sem þú ert endalaust að henda út. Kíkja í ísskápinn sinn áður en maður fer að versla þannig að þú sért ekki að kaupa eitthvað sem er til í ísskápnum, sem leiðir til þess að eitthvað annað skemmist. Elda úr afgöngum. Taka þetta bara upp hjá fjölskyldunni og líka svolítið ræða þetta.“