Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tvær rútur utan vegar nærri Vík

Myndir frá Landsbjörg af björgunaraðgerðum í óveðrinu í desember.
 Mynd: Slysavarnafélagið Landsbjörg
Hrafnhildur Ævarsdóttir, formaður björgunarsveitarinnar Kára í Öræfum, segir að nóg hafi verið að gera við að koma ferðamönnum til hjálpar í óveðrinu í dag. Það snjóaði talsvert í nótt í Öræfum og eru aðstæður erfiðar, og núna er hávaðarok og hríðarbylur.

Aðallega þurfti að koma ferðamönnum til bjargar og er unnið að því að koma þeim fyrir á hótelum á svæðinu. Bílar ferðamannanna voru skildir eftir, enda ekki aðstæður til að koma þeim í burtu. Búið er að loka þjóðvegi 1 á milli Jökulsárlóns og Lómagnúps.

Orri Örvarsson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja í Vík í Mýrdal segir að þar hafi menn komið fólki í 16 bílum til aðstoðar. Reynt er að lóðsa þá flesta til Víkur, en þurft hefur að skilja nokkra bíla eftir þar sem bílstjórar hafa ekki treyst sér til að keyra. Þá eru tvær rútur utan vegar nærri Vík, önnur uppi á Reynisfjalli og hin við Reynishverfi. Vörubílar hafa verið fengnir til að styðja við þær svo þær velti ekki. 

Unnið er að því að koma sem flestum á hótelherbergi fyrir nóttina, þar sem ekki er búist við því að það lægi fyrr en um tíuleytið í kvöld. Orri segir veturinn búinn að vera erfiðan. „Frá jólum er búið að vera ansi mikið að gera hjá okku. Þetta fer að verða ágætti í bili,“ segir Orri.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV