Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tuttugu hreindýr með rafrænan sendibúnað um hálsinn

20.03.2020 - 20:21
Mynd: RÚV / Hjalti Stefánsson
Sendibúnaður hefur nú verið settur á um tuttugu hreindýr á svæðinu frá Breiðamerkursandi norður undir Langanes. Búnaðurinn sendir rafrænar upplýsingar oft á dag sem auðveldar mjög vöktun hreindýrastofnsins.

Á dögunum fóru menn á vegum Náttúrustofu Austurlands á tveimur vélsleðum norður á Vopnafjarðarheiði í því skyni að merkja hreindýr. Eða réttara sagt að hengja sendibúnað um hálsinn á dýrunum.

Skjóta yfir þau neti á stuttu færi

Og það er ekki létt verk að fanga hreindýr, þau hlaupa hratt og reyna auðvitað að forða sér. Enda frelsinu vön. „Við keyrum þau uppi á snjósleðum og notum netabyssu sem náttúrustofan á,“ segir Ívar Karl Hafliðason, hreindýraleiðsögumaður. „Og það þarf að vera dálítið mikill snjór, af því að þau hlaupa hratt. Við þurfum að geta elt þau uppi, komist í gott færi, svona 4-5 metra færi, og svo skjótum yfir þau neti.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Stefánsson

Snöggir að fanga dýrin og merkja

Ívar segir mikilvægt að hafa snör handtök svo dýrunum verði ekki meint af þessum aðgerðum. Og þau fá kraga um hálsinn sem þau ganga með næstu mánuði. 

Sendar komnir á um tuttugu dýr

Það er rúmur áratugur frá því fyrsti sendirinn var settur hreindýr á Austurlandi og í dag eru um tuttugu dýr með sendibúnað á öllum veiðisvæðum nema einu. „Hér áður fyrr þá fórum við og töldum þau, nokkra daga á ári, fljúgandi eða akandi um hreindýrahagana,“ segir Skarphéðinn G. Þórisson, sérfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands. „En núna með þessum tækjum þá getum við fengið upplýsingar um dýrin á hverjum degi.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Stefánsson

Hægt að fylgjast náið með dýrunum

Náttúrustofa Austurland hefur ýmsum skyldum að gegna varðandi vöktun hreindýrastofnsins. Og með þessarri tækni og rafrænum upplýsingum oft á sólarhring segir Skarphéðinn hægt að fylgjast náið með dýrunum, dreifingu þeirra og ástandi, fæðuöflun, burði og svo framvegis.

Sendunum fjölgað mikið á stuttum tíma

Og sendarnir verði sífellt ódýrari og þeim hefur fjölgað mikið á stuttum tíma. „Þannig að það má segja að þetta sér alger bylting í vöktun dýranna. Og við lítum á að þetta sé hluti af grunnvöktun og muni vera það í framtíðinni,“ segir hann.