Tuttugu ára ártíð Halldórs Laxness

Mynd með færslu
 Mynd: Landsbókasafn

Tuttugu ára ártíð Halldórs Laxness

08.02.2018 - 14:15

Höfundar

Þann 8. febrúar voru tuttugu ár liðin frá því nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness féll frá, 95 ára að aldri.

Halldór Kiljan Laxness fæddist í Reykjavík 23. apríl 1902. Hann lést á Reykjalundi í Mosfellsbæ 8. febrúar 1998. Útför hans fór fram frá Landakotskirkju 14. febrúar. Bál­för fór fram frá Foss­vogs­kirkju og var duft skálds­ins lagt í jörð að Mos­felli í Mos­fells­dal í kyrrþey.

Fréttastofa RÚV gerði ævi Halldórs skil í kvöldfréttum, daginn eftir andlát hans.

Mynd: RÚV / RÚV
Æviágrip Halldórs K. Laxness, sem flutt var í fréttatíma sjónvarps 9. febrúar.

Halldór skírðist til kaþólskrar trúar sem ungur maður og fór útförin fram að kaþólskum sið. Séra Jakob Rolland jarðsöng hann. „Ég veit það að sumir munu undrast það að ég skuli tala um trú Halldórs Laxness. Sumir ef til vill munu hneykslast á því að hann sé jarðsunginn frá kaþólskri kirkju. „Var hann trúaður? Á hann í raun og veru samleið með Jesú Kristi? Eða hafði hann ekki fyrir löngu varpað af sér oki kristindómsins?“ Ég veit að maður getur lesið ýmislegt í ritum hans sem kemur ekki heim og saman við boðskap kirkjunnar. Efasemdir í trúmálum voru honum yfirsterkari um tíma.“

Mynd: RÚV / RÚV
Hjálm­ar H. Ragn­ars­son, Ólaf­ur Ragn­ars­son, Jón M. Guðmunds­son, , Thor Vil­hjálms­son, Auður Jóns­dótt­ir, Hall­dór Þor­geirs­son, Þór Kol­beins­son og Hall­dór E. Lax­ness, son­ar­son­ur Hall­dórs, báru kistu Hall­dórs út úr kirkj­unni.

Athöfninni var útvarpað og sjónvarpað í beinni útsendingu. Hátölurum var komið fyrir utan dyra við kirkjuna og í Hlégarði var íbúum Mosfellsbæjar gert kleift að fylgjast með útsendingu RÚV á sýningartjaldi.

Klukkurnar hættar að tifa en skáldið lifir í verkum sínum

Í minningargrein Matthíasar Johannessen, sem birt var tveimur dögum eftir andlát Halldórs, segir að ef sá dagur rynni upp sem Íslendingar gleymdu ritsnilld Halldórs, gegndu þeir ekki lengur hlutverki sínu sem þjóð.  „Og þá verður fámenni þeirra ekki umtalsvert nema vegna þess eins að það verður aumkunarlegt; broslegt. Þá munu þeir ekki einasta hafa gleymt ömmu sinni, heldur Eddu líka en sumir telja merkingarfræðilegan skyldleika með þessum tveimur orðum. Vonandi að klukkan glymji þeirri framtíð sem Halldór Kiljan Laxness óskaði þjóð sinni.“

Halldór Laxness hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1955. Verðlaunin eru þau virtustu sem rithöfundi getur hlotnast og er Halldór eini Íslendingurinn sem fengið hefur þau til þessa.

Elias Wessén, félagi Sænsku akademíunnar, flutti ávarp á sænsku um Halldór og verk hans, en hann ávarpaði skáldið einnig á íslensku áður en Gústaf Adolf VI. Svíakonungur afhenti verðlaunin:

„Sú var tíð, að margir íslenskir rithöfundar völdu sér annað norrænt mál en íslensku til að rita bækur sínar á, og ollu þar ekki einvörðungu fjárhagsástæður, heldur einnig það að þeir vantreystu íslenskri tungu sem tæki til listrænnar sköpunar. Mikilvægasta afrek Laxness er ef til vill að hann hefur endurnýjað íslenska tungu til listrænnar túlkunar í óbundnu máli og með fordæmi sínu gefið íslenskum rithöfundum djörfung til að beita móðurmáli sínu.“

Halldór var lengi vel umdeildur rithöfundur, en eftir að hann fékk Nóbelsverðlaunin má segja að þjóðin hafi tekið hann í sátt. Hann bjó síðustu áratugina á Gljúfrasteini í Mosfellsdal. Þangað heimsóttu hann listamenn frá ýmsum löndum og þjóðhöfðingjar. Þannig varð hann að eins konar sendiherra þjóðarinnar.

Á sjötta áratugnum var Halldór orðaður við forsetaembættið. Í endurminningarriti Matthíasar Johannessen um Bjarna Benediktsson segir að Bjarni hafi beðið Matthías um að fara á fund Halldórs og bjóða honum stuðning til framboðs. „Það gerði ég og er mér undrun nóbelsskáldsins ógleymanleg...En Halldór hafnaði boðinu ljúfmannlega og áttum við alllangt samtal um það hve erfitt gæti reynst ef forsetinn skrifaði umdeildar bækur.“