Tuttugu ár frá Heklugosi

26.02.2020 - 13:40
Mynd: Skjáskot / RÚV
Tuttugu ár eru í dag frá síðasta Heklugosi. Varað var við gosinu í útvarpsfréttum stundarfjórðungi áður en það hófst.

„Allar líkur eru á að gos, eldgos, sé að hefjast í Heklu eftir stundarfjórðung. Tilkynning um þetta var að berast frá Almannavörnum ríkisins.“ Með þessum orðum hóf Sigríður Árnadóttir fréttalesturinn í kvöldfréttum útvarps 26. febrúar árið 2000. Eldgosið hófst sautján mínútur yfir sex.

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur var fyrir tilviljun að skipta um pappír í jarðskjálftamælum í Raunvísindastofnun um klukkan fimm síðdegis. Þá sá hann hvað var í aðsigi og lét Almannavarnir vita.

Eldgosið var lítið í samanburði við mörg fyrri gos. Það vakti þó mikla athygli. Þúsundir fóru af Faxaflóasvæðinu austur fyrir fjall til að fylgjast með gosinu. Það gekk þó ekki jafnvel hjá öllum. Blindhríð gerði á Hellisheiði og í Þrengslum þannig að umferð stöðvaðist. Á annað hundrað björgunarsveitarmenn þurftu að hjálpa um 1.500 manns sem voru fastir. Þegar veðri slotaði þurfti að losa nokkur hundruð bíla.

Gosið fyrir tuttugu árum var það átjánda í Heklu síðan sögur hófust og sjöunda á tuttugustu öld. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi