Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tungumál í fortíð, samtíð og framtíð

Mynd: Jórunn Sigurðardóttir / Jórunn Sigurðardóttir

Tungumál í fortíð, samtíð og framtíð

03.09.2017 - 23:32

Höfundar

Tungumál er meira en orð til að tjá hugsanir og tilfinningar og þótt það sé mikilvægt að nota réttu orðin og beita málfræði rétt þá eru tungumál ævinlega kvik og stöðugum breytingum undirorpin. Það er nauðsynlegt að rannsaka þessar breytingar og jafnvel stýra formi tungumálsins og notkun þess. Fyrst og fremst er tungumál þó samskiptatæki og þeir sem tala vilja að aðrir skilji það sem þeir segja. Í þættinum Orð um bækur á rás 1 var rætt við Ara Pál Kristinsson höfund bókarinnar Málheimar.

Nýlega kom út hjá Háskólaútgáfunni bókin Málheimar. Sitthvað um málstefnu og málnotkun þar sem í skiplögðum köflum með fjölda styttri undirkafla er rætt á mannamáli um um stöðu tungumála í mismunandi ríkjum, minnihlutamál og innflytjendamál og hvernig dauða tungumála ber að. 

Það er fjallað um málvernd og málstýringu, hvort til sé rétt mál og rangt og stöðu tungumáls eins og íslenskunnar gagnvart heimstungunni ensku. 

Þá er fjallað um málfræðireglur, hvernig þær verða til og hvernig þær breytast því tungumálið er í stöðugri endurnýjun enda alltaf nýir og og nýir einstaklingar sem beita því í síbreytilegum heimi. 

Höfundurinn Ari Pál Kristinsson hefur starfað við og stundað rannsóknir á málrækt um árabil. Hann var m.a. málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins um hríð en er nú rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.