Tugþúsundir vilja búa í Líberlandi

18.05.2015 - 23:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýtt smáríki, Líberland, hefur verið stofnað í Evrópu á landsvæði sem ekkert annað ríki gerir tilkall til. Tugþúsundir hafa þegar sótt um ríkisborgararétt.

Eftir lok borgarastríðsins í Júgóslavíu gera bæði Króatar og Serbar tilkall til margra landsvæða en til eru nokkur svæði á landamærunum sem hvorugt ríki gerir tilkall til. Það stærsta er sjö ferkílómetrar og þar er tékkneskur aðgerðarsinni búinn að stofna fríríki.

Tugþúsundir hafa þegar óskað eftir ríkisborgararétti en kommúnistar, nýnasistar og öfgamenn eru ekki velkomnir. Líberland er á vesturbakka Dónár, einu landamærin eru að Króatíu og þarlend yfirvöld neita að hleypa fólki í gegn. Eina leiðin er því að sigla frá Serbíu.

Ekkert annað ríki viðurkennir Líberland en leiðtogar þess segjast þegar uppfylla flest ákvæði Montevideo sáttmálans um fullveldi ríkja. Þá sé landsvæðið stærra en bæði Vatíkanið og Mónakó.

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi