Tugþúsundir flýja herlið Tyrkja

epaselect epa07910206 Kurdish families flee their home towns Ras al-Ein due to the Turkish offensive in northern Syria, 10 October 2019. Turkey has launched an offensive targeting Kurdish forces in north-eastern Syria, days after the US withdrew troops from the area.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir sextíu þúsund manns hafa flúið að heiman á innan við einum sólarhring frá innrás tyrkneska hersins í norðurhluta Sýrlands. Sýrlenska mannréttindavaktin greindi frá þessu í dag.

Öngþveiti er í bæjum og þorpum við landamæri Sýrlands og Tyrklands vegna árása af landi og úr lofti. Við bætist straumur flóttafólks. Margir koma gangandi, aðrir í fólksbílum, pallbílum eða á mótorhjólum með það af eigum sínum sem þeir gátu tekið með sér.

Almennir borgarar falla

Níu mánaða sýrlenskt barn og fullorðin manneskja létu lífið í dag þegar sprengjum var varpað á bæinn Akçakale, Tyrklandsmegin landamæranna. Á fimmta tug særðust. Þá féllu tveir almennir borgarar í héraðinu Mardin.

Erdogan, forseti Tyrklands, segir að yfir eitt hundrað bardagamenn úr röðum Kúrda hafi verið felldir. Hernaðaraðgerðir Tyrkja hófust þremur dögum eftir að Donald Trump dró bandaríska herliðið frá stöðvum sínum á svæði Kúrda í Sýrlandi. Með því opnaði hann fyrir möguleika Tyrkja á að ráðast á Kúrda. Tyrkir skilgreina hersveitir þeirra sem hryðjuverkamenn.

Hjálpuðu ekki til í Normandí

Trump varði ákvörðun sína á fundi með fréttamönnum í gær með því meðal annars að Kúrdar hefðu ekki komið bandamönnum til hjálpar í síðari heimsstyrjöldinni, til dæmis í orrustunni um Normandí.

Forsetinn sagði að Bandaríkjamenn hefðu varið gríðarlegum fjárhæðum til styrktar Kúrdum, séð þeim fyrir vopnum og skotfærum og reiðufé enda væri Bandaríkjamönnum vel við Kúrda.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi