Tugir flutningabíla milli Reykjavíkur og Akureyrar

10.01.2020 - 10:39
Innlent · Norðurland · Ófærð · umferð · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: Georg Valur Geirsson
Það losnaði um mikla stíflu hjá flutningafyrirtækjum þegar loksins tókst að opna landleiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar í gærkvöld. Tugir bíla fóru af stað að norðan og annað eins frá Reykjavík. Margir hafa verið strandaglópar í Varmahlíð síðustu daga.

Mestalla þessa viku hafa fjallvegir á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar verið lokaðir. Á þessarri leið eru jafnan miklir flutningar og því var orðið vandræðaástand hjá flutningafyrirtækjum og vörur farnar að safnast upp. Í gær komust fyrstu bílarnir loks af stað.

Gátu sent bíla af stað í gærkvöld

„Seinnipartinn í gær þá opnaðist leiðin í gegnum Siglufjörð og Ólafsfjörð og þá sendum við af stað norður úr Varmahlíð bíla sem voru búnir að bíða þar í sólarhring. Og ætli hafi ekki varið bara á okkar vegum 15 eða 16 bílar,“ segir Sveinn Aðalsteinsson, svæðisstjóri Eimskips á Norðurlandi. Öxnaldalsheiði var svo opnuð í gærkvöld og þá losnaði önnur stífla þegar fyrstu bílarnir komust frá Akureyri. „Þá fóru héðan eitthvað yfir 20 bílar,“ segir hann.

Tugir flutningabíla frá nokkrum fyrirtækjum

Tugir bíla komust svo áfram til Reykjavíkur þegar Vatnsskarð og Holtavörðuheiði voru opnaðar. Og einnig bílar að sunnan og norður. Þetta voru meðal annars bílar frá Flytjanda, Landflutningum Samskipum og Vörumiðlun. 

Margir strandaglópar í Varmahlíð

Pétur Stefánsson, stöðvarstjóri hjá Olís í Varmahlíð segir að margir hafi verið strandaglópar þar undanfarna daga. Hann taldi 19 flutningabíla þar á planinu í gærkvöldi og segir að 12 bílar hafi verið hjá þeim í fyrradag. Auk þess rútur og ferðamenn á bílaleigubílum.

Mjög erfitt að halda áætlun

En Sveinn segir að þó tekist hafi að koma miklu af vörum til skila núna, sé ekkert lát á ófærðinni og mjög erfitt sé að handa áætlun. „Úr Reykjavík í dag verðum við að senda eins mikið og við getum af stað um hádegi, til að tryggja það norður. Það er bara orðin slæm spá seinnipartinn þannig að það gæti lokast allt aftur.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi