Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tugir flóttamanna drukknuðu á Miðjarðarhafi

11.05.2019 - 00:27
epa05343251 A buoyancy aid lies on a beach where bodies of migrants washed up, in Zuwarah, west of Tripoli, Libya, 02 June 2016. According to media reports citing Red Crescent officials, at least 85 bodies have washed up onto Libyan beaches this week.
 Mynd: EPA
Að minnsta kosti 65 flóttamenn drukknuðu þegar bátur sem sigldi með þá hvolfdi á Miðjarðarhafinu, undan ströndum Túnis í dag. Að sögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna var 16 bjargað. Að sögn þeirra sem lifðu af slysið lagði báturinn úr höfn frá Zuwara í Líbíu í gær.

Þetta er líklega mannskæðasta sjóslys þar sem flóttamenn eiga í hlut það sem af er ári. Samkvæmt gögnum frá Sameinuðu þjóðunum hafa yfir 160 flóttamenn látið lífið á leiðinni frá Líbíu til Evrópu á fyrstu fjórum mánuðum ársins.

BBC hefur eftir Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að sjóherinn í Túnis hafi siglt með eftirlifendur að strönd Túnis, þar sem þeir bíða þess nú að fá að fara frá borði. Einn var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar. Samkvæmt tilkynningu varnarmálaráðuneytis Túnis var skip sjóhersins sent af stað um leið og fregnir bárust af slysinu. Skipið sá þá hvar áhöfn fiskveiðiskips bjargaði fólki upp úr sjónum.

Flóttamenn frá Miðausturlöndum og ríkjum Afríku sunnan Sahara hafa þúsundum saman reynt að komast sjóleiðina frá Afríku til Evrópu. Þeim hefur þó fækkað nokkuð síðan um mitt ár 2017. Um 15.900 flóttamenn komu til Evrópu yfir Miðjarðarhafið á fyrstu þremur mánuðum þessa árs, eða 17 prósentum færri en á sama tíma í fyrra.